Erfiðara en ég bjóst við
- Njarðvíkingar stigalausir í 2. deild
Lærisveinar Guðmundar Steinarssonar í Njarðvík hafa ekki riðið feitum hesti í fyrstu leikjum liðsins í 2. deildinni í fótboltanum. Liðið hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum til þessa en liðið er skipað ungum leikmönnum þar sem nýr og óreyndur þjálfari stendur í brúnni. Hann segist nokkuð sáttur með spilamennskuna þrátt fyrir að stigin láti á sér standa.
„Árangurinn er engan veginn sá sem við vonuðumst eftir. Við erum þó ekki farnir að örvænta,“ segir Guðmundur hinn rólegasti. Hann segir að í þeim fjórum leikjum sem hafi tapast til þessa hafi Njarðvíkingar verið að standa sig nokkuð vel þrátt fyrir að stigataflan gefi annað til kynna. „Við höfum alls ekki verið yfirspilaðir. Það virðist vera að reynsluleysið sé að skína í gegn hjá okkur. Það hefur margt jákvætt komið út úr þessum leikjum svona fyrir utan stigasöfnun okkar.“ Guðmundur er á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari en hann viðurkennir að starfið sé nokkuð strembið. „Ég neita því ekki að þetta er erfiðara en ég bjóst við. Engu að síður er þetta líka skemmtilegra en ég bjóst við. Það er að mörgu að huga þegar maður er að þjálfa. Þetta er mikil áskorun og krefjandi verkefni.“
Vill síður þurfa að hlaupa sjálfur
Lið Njarðvíkinga er ungt og reynslulítið og sem dæmi má nefna að jafnan eru sex leikmenn sem eru gjaldgengir í 2. flokk á vellinum í hverjum leik Njarðvíkinga. „Þessir ungu leikmenn eiga eftir að hagnast á þessari reynslu síðar meir. Það eru ekki margir á þessum aldri sem hljóta þessa reynslu. Reynslan vegur mikið í þessari deild. Við erum með marga leikmenn sem hafa hvorki reynslu af því að spila í 2. deild né í efstu deild. Það virðist sem það hafi áhrif,“ segir þjálfarinn sem þó undirstrikar að hann hafi fulla trú á ungum og hæfileikaríkum leikmönnum sínum. Guðmundur segir ekki margt hafa komið sér á óvart hvað varðar 2. deildina nema kannski hvað hans mönnum hefur ekki gengið að ná í stig. Gamli markahrókurinn er klár sjálfur með takkaskóna ef á þarf að halda, en hingað til hefur hann treyst á ungu strákana. „Ég vona bara að þeir fari að ná inn stigum svo að ég þurfi að hlaupa sem minnst,“ segir Guðmundur á léttu nótunum að lokum.
Njarðvíkingar leika á Dalvík klukkan 16:00 í dag, laugardag.