Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Er ekki draumurinn að leika á Englandi?
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 6. desember 2020 kl. 13:09

Er ekki draumurinn að leika á Englandi?

Daníel Leó Grétarsson lítur á skiptin til Blackpool sem stökkpall upp í efri deildir 

Grindvíkingurinn Daníel Leó Grétarsson hefur leikið með Álasund síðustu sex ár en hann söðlaði um nú í haust þegar Daníel gerði tveggja ára samning við Blackpool sem leikur í C-deildinni á Englandi. Honum fannst hann vera kominn í of þægilegan kassa í Noregi sem héldi aftur af honum til að þroskast sem knattspyrnumaður. Daníel Leó spjallaði við Víkurfréttir um enska boltann og lífið í Blackpool.

„Af mér er allt fínt að frétta, miðað við aðstæður. Ég er að fíla það vel að vera í Englandi. Við erum rétt að koma okkur fyrir, fá dótið okkar inn í íbúðina og svoleiðis – svo núna getur maður aðeins byrjað að slaka á,“ segir Daníel Leó Grétarsson, atvinnumaður í knattspyrnu sem gekk til liðs við Blackpool í ensku C-deildinni nú í byrjun október.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Ykkur hefur gengið vel síðan þú komst en töpuðuð síðasta deildarleik.

„Jú, komumst í tvö núll á móti Doncaster en áttum lélegan seinni hálfleik, þeir gengu á lagið og kláruðu leikinn. Maður getur ekki unnið alla leiki en þetta hefur verið á uppleið hjá okkur. Eftir að ég kom inn í liðið hefur gengið betur en var búið að ganga. Það er jákvætt fyrir mína parta.“

Sæti í byrjunarliðinu

Blackpool lék á laugardag gegn Harrogate Town í bikarnum og vann með fjórum mörkum gegn engu, næsti deildarleikur hjá Blackpool er gegn Portsmouth (var leikinn á þriðjudagskvöld) sem er í fimmta sæti deildarinnar.

„Ég kom inn í liðið þegar einn fékk rautt spjald og fór í þriggja leikja bann. Það má segja að ég hafi nýtt tækifærið og er búinn að vera í byrjunarliðinu síðan þá. Ég var hvíldur í leiknum á móti Harrogate Town enda sagði þjálfarinn að það væri nóg af leikjum eftir.“

– Ertu búinn að ná að kynnast borginni eitthvað?

„Ég náði aðeins að skoða borgina fyrst eftir að ég kom en svo er allt búið að vera í „lockdown“ og flestallt lokað. Þetta er svona staður sem Bretar ferðast til ef þeir eiga stutt frí. Blackpool er þekkt fyrir skemmtigarða fyrir fjölskyldur, það eru þrjú tívolí hérna, rennibrautagarður og allt sem þú leitar að fyrir krakka, leikjasalir. Einhvers staðar heyrði ég að þetta væri Las Vegas Bretlands, það var einhver sem hafði komið til Blackpool áður en ég kom hingað sem sagði þetta við mig.“

– Sérðu fyrir þér að ílengjast í Englandi?

„Maður veit aldrei, eina sem ég vissi var að ég þyrfti á einhverri tilbreytingu að halda eftir sex ár í Noregi. Ég var kominn á mjög þægilegan stað þar og eftir að þetta kom upp sá ég tækifæri til að bæta mig og mína knattspyrnueiginleika. Hérna er leikin svolítið líkamlegri bolti, meiri barátta.“

– Er ekki bara draumurinn að spila í Englandi?

„Jú, ætli það ekki. Þetta er svona Mekka fótboltans, ég held að alla dreymi um það að spila í ensku deildinni. Ég lít á þetta sem mögulegan stökkpall upp í efri deildir og þá er aldrei að vita. Ég hef séð leikmenn koma úr neðri deildum, eru allt í einu mættir í efstu eða næstefstu deildina og slá í gegn. Ég held að það sé stutt á milli í þessum deildum.“

– Hvert er þitt liði í enska boltanum?

„Það er Manchester United, þeir eru í klukkutíma fjarlægð héðan. Það er ekki langt að fara.“

Forréttindi að fá að eyða tíma með börnunum

– Ertu með fjölskyldu?

„Já, ég á konu, Ásdísi Völu Freysdóttur sem er gallharður Njarðvíkingur, og Martein Darra, tveggja ára strák – svo er annað á leiðinni, væntanlegt í mars.“

– Hvernig sérðu hátíðirnar fyrir þér, þú ert ekkert að koma heim eða hvað?

„Nei, ég held að við séum að spila níu leiki í desember. Það eru tveir leikir á viku út mánuðinn. Við verðum bara hér úti fjölskyldan, þegar við vorum í Noregi var alltaf mánaðar frí í desember, það verður bara gaman að prófa eitthvað annað.“

– Hvað gerir konan þín á meðan þú ert í fótbolta?

„Hún er bara að njóta þess að vera með syninum heima, við teljum það vera ákveðin forréttindi að fá að eyða tíma með honum og ala hann upp eins og við viljum. Þetta er tími sem kemur aldrei aftur. Við lítum á það sem forréttindi að fá að eyða sem mestum tíma með börnunum sínum.“

Ásdís Vala og Daníel Leó með Martein Darra. Þau telja það viss forréttindi að fá að eyða tíma með börnunum sínum.