Er eitthvað í vatninu á Suðurnesjum?
Suðurnesjamenn gera það gott í 1. deild
Eins og flestum er kunnugt er úrslitakeppnin í körfubolta í fullum gangi. Karlalið Grindvíkinga glímir við KR-inga og Keflavíkurstúlkur leika gegn Val. Í 1. deild karla er svo barist um að komast upp í efstu deild. Þar eigast við Valur og Þór Akureyri í annarri undanúrslitaviðureigninni. Suðurnesjamenn eru nokkuð fyrirferðamiklir í þessum liðum og hafa látið mikið að sér kveða. Í leik þessara liða fyrr í vikunni sem endaði með 91-86 heimasigri Vals, skoraði Njarðvíkingurinn Ólafur Aron Ingvason 28 stig fyrir Þórsara og átti hann auk þess 10 stoðsendingar. Samherjar hans, Halldór Örn Halldórsson frá Keflavík og Njarðvíkingurinn Elías Kristjánsson, létu ekki sitt eftir liggja, en Halldór var með 13 stig og 8 fráköst en Elías skoraði 11 stig.
Í röðum Valsmanna er svo enn einn Njarðvíkingurinn en þar hefur leikstjórnandinn Rúnar Ingi Erlingsson hreiðrað um sig. Hann stóð sig vel í leiknum en hann skoraði 20 stig og tók 6 fráköst. Rúnar var spurður að því í leikslok hvort það væri eitthvað í vatninu þarna í Reykjanesbæ. „Ég spilaði nokkuð vel í leiknum og tríóið hinum megin var flott,“ sagði Rúnar í samtali við VF en það vakti athygli liðsfélaga hans.
Ólafur Aron hefur verið að leika afar vel fyrir norðan en honum líkar lífið þar vel.
„Akureyri er snilldarbær og hér er frábært að vera,“ segir Ólafur en hann lék með Stjörnunni áður en hann hélt til Akureyrar. Hann var nokkurn tíma að ná sér af meiðslum en segist nú óðum vera að finna gamla formið sitt. Hann segir gaman að vera í nýju hlutverki en hann er einn af reynsluboltum liðsins. „Það er nýtt hlutverk sem hefur verið gaman að takast á við. Auðvitað hefðum við gert enn stærri hluti í vetur með „alvöru“ Ameríkana sem gæti skilað sömu tölum og þessir Kanar gera hjá hinum toppliðunum,“ en Þórsarar enduðu í fimmta sæti deildarinnar.
Ólafur sem spilar í stöðu leikstjórnanda segir það frábært að hafa Suðurnesjamennina þarna sér við hlið. „Ég spilaði með Halldóri í öllum yngri landsliðum þannig að við þekkjum hvorn annan vel og líður vel saman. Svo þekkti maður vel til Ella sem leikmanns gegnum Njarðvík.“ Ólafur segir Þórsliðið vel blandað af yngri og eldri leikmönnum. Ólafur hefur skorað 16,3 stig að meðaltali í vetur (15 í deildinni) og auk þess gefur hann flestar stoðsendingar innan liðsins en þar er hann sjötti yfir alla deildina. Bæði hann og Halldór Örn eru svo meðal 20 efstu manna deildarinnar í framlagi.
Rúnar Ingi hefur leikið glimrandi í vetur og leiðir Valsliðið í stoðsendingum með tæpar fimm „snuddur“ í leik en aðeins tveir leikmenn deildarinnar gefa fleiri stoðsendingar í leik. Einnig hefur hann verið að skora 10 stig að meðaltali og stjórnað leik liðsins eins og herforingi. Rimman við Þór leggst vel í hann en honum líkar að spila leiki þegar allt er undir. „Við erum vel mannaðir og getum vel farið upp, en Þórsarar með Suðurnesjatríóið í fararbroddi er hörkulið og það er bara gaman að fá að takast á við svona góða vini á vellinum. Þeir eru líka allir að spila mjög vel og þá sérstaklega Óli Aron, en hann er að komast aftur í sitt gamla form,“ segir Rúnar um fyrrum liðsfélaga sinn úr Njarðvík. Rúnari líður vel á Hlíðarenda og hann hefur hug á því að vera þar áfram. „Hér næ ég betur að tvinna saman boltann við vaktavinnuna í flugturninum með góðri hjálp frá þjálfurunum. Þannig æfi ég betur núna en oft áður og það skilar sér inn á völlinn,“ sagði leikstjórnandinn að lokum.
Annar leikur liðanna fer fram í kvöld klukkan 19:15 og er hann sýndur beint á SportTV.
Keflvíkingurinn Halldór Örn hefur leikið fantavel í vetur á Akureyri. Að ofan má sjá Njarðvíkinginn Elías Kristjánsson.