Er eiginlega búinn að vera á hliðarlínunni í átta ár
– segir Sigurbergur Bjarnason sem lagði skóna á hilluna í fyrra og þjálfar nú knattspyrnulið Hafna.
Sigurbergur Bjarnason lék með Höfnum á síðasta tímabili en eftir að hafa glímt við þrálát meiðsli síðustu ár, tvö krossbandaslit og þrjá rifna liðþófa, ákvað hann að leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabil þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur tekið við þjálfun knattspyrnuliðs Hafna sem leikur í fimmtu deild en þjálfaraáhugann erfir hann sennilega frá föður sínum, Bjarna Jóhannssyni, sem hefur stýrt fjölmörgum liðum á Íslandi áratugum saman og er enn að.
Stefnan tekin á fjórðu deild
Hvernig stendur á því að þú ert tekinn við Höfnum?
„Ég hætti að spila eftir síðasta tímabil, þá með Höfnum, og þá spurði Beggi [Bergsveinn Andri Halldórsson] mig hvort ég væri ekki til í að þjálfa. Ég var alveg til í það enda eru spennandi tímar framundan hérna, margir strákar að æfa og það lítur út fyrir að þetta sé að verða alvöru þjálfaragigg hjá mér.“
Er þetta kannski einhver genagalli?
„Sennilega, alla vega hnémeiðslin,“ segir Sigurbergur og hlær. „Við systkinin höfum öll glímt við hnémeiðsli eins og pabbi. Ég sleit fyrst krossbönd sautján ára og er tuttugu og fimm núna. Ég er eiginlega búinn að vera á hliðarlínunni í að verða átta ár eftir tvö krossbandaslit og þrjá liðþófa. Þessi meiðsli komu mjög þétt á eftir hverju öðru, maður náði kannski að æfa í tvo mánuði eftir „recovery“ og þá slitnaði eitthvað annað.
En í alvöru talað þá finnst mér þetta ótrúlega skemmtilegt og ég fæ sama kikk út úr því að vera að djöflast á hliðarlínunni eins og að vera að spila. Svo sprikla ég eitthvað smávegis með á mánudagsæfingum líka,“ segir Sigurbergur sem stefnir á þjálfaranám á næsta ári en núna er hann upptekinn við að ljúka meistaranámi.
Hver er stefnan í sumar?
„Stefnan er að fara upp í fjórðu deildina. Fyrsta markmið er að vinna okkar riðil, A-riðilinn, og síðan að taka úrslitakeppnina,“ segir Sigurbergur en fimmta deild er spiluð í tveimur riðlum og tvö efstu liðin fara upp úr hvorum riðli, þá taka við fjögurra liða úrslit og sigurvegarar úr þeim mætast í úrslitaleik. „Þannig að undanúrslitaleikurinn er eiginlega úrslitaleikur um að komast upp um deild og úrslitaleikurinn um hverjir vinna titilinn.“
Stuðningur og stemmning
Þótt Hafnamenn leiki í fimmtu deild segir Sigurbergur að allir í liðinu gefi sig í verkefnið og þeir geri sitt besta til að umgjörðin sé á svipuðum stalli og hjá annarrar og þriðju deilda liðum. „Eins og fyrir bikarleiki þá fórum við og borðuðum saman á Saffran, mættum svo allir fínir og vel til hafðir í leikina.
Fyrir heimaleiki í sumar ætlum við að spila tónlist og þegar við löbbum inn á völlinn spilum við Villa Vill og Elly Vilhjálms, þau eru úr Höfnum, og þótt þetta sé fimmtu deildarlið þá ætlum við að setja þetta á þann standard að við séum svolítið framarlega.“
Hafnir hafa nú verið með góðan hóp stuðningsmanna.
„Já, Hafnir Hooligans. Þeir eru alveg geggjaðir maður, snarruglaðir – en þetta eru algjörir snillingar. Við vonum svo bara að fleiri fari að mæta því það eru margir Suðurnesjamenn í hópnum og við ætlum að spila flottan fótbolta í sumar. Við erum örugglega það lið á Suðurnesjum sem er með flesta Suðurnesjamenn í hópnum,“ segir Sigurbergur.
Njarðvík og Hafnir gerðu með sér venslasamning á síðasta ári og Sigurbergur segir að ungir Njarðvíkingar muni spreyta sig meira með Höfnum þegar fram líða tímar. Hafnir lítur á sig sem félag þar sem ungir leikmenn fá að spreyta sig, nokkurs konar stökkpallur fyrir stráka sem eru til dæmis að ganga upp úr öðrum flokki hjá Keflavík eða Njarðvík og vantar smá leikreynslu. „Þegar við verðum komnir í fjórðu deild sé ég fyrir mér að fleiri eigi eftir að koma til okkar, þetta tekur bara tíma. Ég held að það séu margir strákar hérna sem eiga eftir að spila með Njarðvík eða Keflavík þegar þeir verða eldri,“ segir Sigurbergur. „Eins og umræðan er, og var sagt í einu hlaðvarpi, þá halda margir að þeir sem eru að spila í þessum neðri deildum séu bara tuttugu og tvær fyllibyttur en það er alls ekki þannig. Margir eru kannski með fjölskyldur og börn heima og hafa ekki tíma til að æfa fimm sinnum í viku og svo eru það þeir sem eru að vinna sig upp í sterkari lið, þetta er aldrei þannig að við séum að spila ljótan fótbolta eða eitthvað að fíflast. Gæðin í öllum deildum á Íslandi hafa farið stighækkandi og ég held að þau eigi eftir að verða enn meiri,“ sagði Sigurbergur að lokum.