Enn von hjá Njarðvík - mæta Reyni í dag
Njarðvíkingar eygja enn veika von um að leika í 1. deildinni í knattspyrnu karla að ári. Þeir eru þremur stigum frá öðru sætinu sem nægir þeim til þess að komast upp um deild og í dag klukkan 14:00 fá þeir granna sína úr Reyni Sandgerði í heimsókn. Reynismenn hafa ekki að neinu að keppa sem slíku en fyrri viðureign liðanna í sumar endaði 6-3 fyrir Reyni í bráðfjörugum leik. Víkurfréttir náðu tali af Gunnari Magnúsi Jónssyni þjálfara Njarðvíkinga í vikunni.
„Ég býst bara við fjörugum leik og vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta, miðað við markasúpuna sem þessi lið hafa boðið upp á í sumar þá ætti enginn að vera svikinn. Það væri óskandi að liðin hefðu bæði möguleika á að komast upp eins og gerðist fyrir tveimur árum en nú erum það við sem getum mögulega komið okkur upp en þetta verður hörkuleikur.“ Njarðvíkingar eru þremur stigum á eftir Tindastól/Hvöt og verða því að treysta á að þeir tapi sínum leik og Njarðvíkingar sigri granna sína úr Sandgerði.
Tímabilið hefur verið brokkgengt hjá Njarðvíkingum og þeir hafa m.a. ekki enn sigrað tvo leiki í röð í sumar. „Það er í raun ótrúlegt og deildin hefur verið gríðarlega jöfn. Það er líka merkilegt að segja frá því og sennilega er það einsdæmi en það hefur ekki enn orðið 0-0 jafntefli í deildinni í sumar sem er hreint með ólíkindum. Þetta er ungt lið sem að skortir kannski reynslu en þarna eru fullt af hæfileikamönnum. Ég tel að við séum tilbúnir í slaginn í 1. deild en auðvitað yrði kannski að bæta við nokkrum reynsluboltum og svo verða þessir strákar sem við erum með orðnir einu ári eldri. Það kemur svo í ljós í dag hvort við náum að klára þetta, það er enn von.“
Gunnar hvatti jafnframt Suðurnesjamenn til að leggja sér leið á völlinn og njóta þess sem vonandi verður skemmtilegur knattspyrnuleikur.