Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Enn tapar Grindavík á heimavelli
Sunnudagur 24. ágúst 2008 kl. 21:30

Enn tapar Grindavík á heimavelli





Heimavallardraugurinn heldur áfram að hrella Grindvíkinga sem sendu Fram heim með þrjú stig í nesti eftir annars bragðdaufan og jafnvel leiðinlegan leik í Grindavík nú síðdegis. Grindvíkingar hafa eingöngu landað sex stigum á heimavelli í sumar. Liðinu hefur hins vegar vegnað mun betur á útivelli.


Paul McShane skoraði fyrra mark Fram í leiknum í Grindavík síðdegis á þrettándu mínútu eftir sendingu í gegnum vörnina frá Hjálmari Þórarinssyni.


Grindvíkingar sýndu einhverja viðleitni í upphafi leiks til að bjóða upp á skemmtilega knattspyrnu. Það varð hins vegar fátt um fína drætti í leiknum sem var blautur á köflum en gríðarlegar rigningarskúrir gerði í Grindavík og ekki var þurr þráður á leikmönnum. T.a.m. höfðu dómarar leiksins fataskipti í hálfleik.


Síðara mark leiksins kom um miðjan síðari hálfleik en þá gerðu Grindvíkingar sjálfsmark sem kom upp úr hornspyrnu. Eysteinn Húni Hauksson skallaði í eigið mark og eftir leikinn sagði hann að markið hafi kannski verið lýsandi fyrir leik Grindavíkur í dag. Ekkert hafi gengið upp í leik liðsins og stuðningsmenn liðsins voru margir hverjir búnir að pakka saman og farnir heim á leið nokkru áður en venjulegur leiktími var liðinn.


Frammarar fögnuðu að vonum vel og lengi í leikslok enda komnir með 28 stig og í fjórða sæti Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu. Grindvíkingar hafa 24 stig og eru í 7. sæti deildarinnar.
Keflavík er sem fyrr á toppi Landsbankadeildarinnar með 37 stig eftir 2-2 jafntefli við KR í Frostaskjólinu í kvöld. FH er áfram í örðu sæti með 35 stig eftir 3-3 jafntefli gegn Fjölni.


Ljósmynd: Ellert Grétarsson / Barátta í vítateig í þéttri rigningu sem var í Grindavík í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024