Íþróttir

Enn ekki tekist að manna stjórn Þróttar
Frá fyrri aukaaðalfundi knattspyrnudeildar Þróttar sem fór fram fyrir þremur vikum. Mynd/throtturvogum.is
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 24. október 2023 kl. 10:49

Enn ekki tekist að manna stjórn Þróttar

Aukaðalfundur knattspyrnudeildar Þróttar var haldinn í gær og þrátt fyrir að búið sé að halda tvo aukaaðalfundi í haust hefur ekki enn tekist að mynda stjórn deildarinnar. Það liggur fyrir að næsti aðalfundur, sem fer fram í febrúar, verði einn sá mikilvægasti í sögu knattspyrnudeildar Þróttar. Fundurinn ákvað ennfremur að óska eftir að aðalstjórn félagsins taki við daglegum rekstri deildarinnar þar til næsti aðalfundur verður haldinn.

Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, sagði í viðtali við Víkurfréttir að hann hafi verulegar áhyggjur af stöðu mála. „Staðan er þannig að við höfum fólk til að manna stjórn knattspyrnudeildarinnar en það leggur enginn í formanninn. Þrátt fyrir að Þróttur hafi alltaf frábæran stuðning bæjarbúa á leikjum og öðrum viðburðum félagsins hefur sjálfboðaliðum fækkað allverulega og engir komið í þeirra stað. Ég hef verulegar áhyggjur af þessari þróun mála,“ segir Marteinn. „Þeir eru fáir sem eru tilbúnir að axla þá ábyrgð að sitja í stjórn deildarinnar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Marteinn Ægisson á leik Þróttar gegn Magna tímabilið 2021 þar sem Þróttur tryggði sér sæti í næstefstu deild karla í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögu félagsins. VF/JPK

Í frétt á vef ungmennafélagsins segir að knattspyrnudeild Þróttar sé að fara í þrjú mikilvæg verkefni á næstu dögum og vikum. „Kann deildin öllum þeim sjálfboðaliðum sem buðu fram krafta sína í gærkvöldi miklar þakkir fyrir og haft verður samband við alla þegar nær dregur verkefnum.

Þjálfararáðningar voru kláraðar á dögunum. Leikmannamál eru alltaf til endurskoðunnar í samstarfi við þjálfara og viðræður ganga vel. Tekist hefur að ganga frá æfingaaðstöðu fyrir veturinn. Þróttur býr svo vel að vera með öfluga styrktaraðila og endurnýjun samstarfssamninga hefjast snemma á nýju ári. Þökk sé öflugum sjálfboðaliðum þá rekur deildin eitt skemmtilegasta og öflugasta getraunakaffi landsins.“