Enn eitt tapið hjá Þrótti
Tveir leikir fóru fram hjá Suðurnesjaliðunum í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær. Þróttarar tóku á móti Fylkismönnum sem unnu öruggan 0:3 sigur en Grindvíkingar fóru í Kópavog þar sem gestgjafarnir í HK höfðu betur, 2:1.
Þróttur - Fylkir 0:3
Þróttarar hófu leikinn illa og fengu tvö mörk á sig snemma í leiknum (5' og 11'). Fylkismenn voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og þeir bættu þriðja markinu við skömmu fyrir leikhlé (44') og höfðu því þriggja marka forskot í hálfleik.
Það var allt annað að sjá til Þróttarliðsins í seinni hálfleik, þeir komust betur inn í leikinn og börðust vel. Þróttur setti meira í sóknina og sköpuðu nokkrum sinnum usla í vörn Fylkis en það vantaði herslumuninn á að klára sóknirnar.
Þróttur er enn án sigurs í Lengjudeildinni og vermir botninn með tvö stig. Þeir eiga þó einn leik til góða, gegn HK.
HK - Grindavík 2:1
Leikurinn byrjaði ekki gæfulega hjá Grindvíkingum en HK skoraði fyrsta mark leiksins strax á 2. mínútu.
Í seinni hálfleik missti HK mann út af með rautt spjald (69') og það náðu Grindvíkingar að nýta sér en þeir jöfnuðu leikinn í uppbótartíma (90'+6). Markið gerði Tómas Leó Ásgeirsson úr vítaspyrnu.
Hasarinn var samt ekki búinn því HK gerði sér lítið fyrir og hirti öll stigin með marki aðeins mínútu síðar (90'+7). Grindvíkingar sátu því eftir með sárt ennið og eru enn í sjötta sæti deildarinnar.