Enn eitt tapið hjá Grindavík og jafntefli hjá Keflvíkingum
"Við áttum ágætis leik að mörgu leiti í dag, margt jákvætt en eitt og annað sem við eigum ennþá eftir að laga," sagði Auðunn Helgason eftir 1-2 tap gegn Val í 4. umferð Pepsi deildar karla nú í kvöld. Heimamenn töpuðu og sitja því enn stigalausir á botni deildarinnar.
Leikurinn fór heldur rólega af stað. Valsmenn sóttu töluvert meira en heimamenn en náðu þó ekki að skapa sér hættuleg færi. Þegar tuttugu mínútur voru liðna
r af leiknum voru Valsmenn búnir að fá alls fimm hornspyrnur en náðu ekki að nýta þær sem skyldi. Hættulegasta sókn fyrri hálfleiks kom á 36. mínútu þegar Rúnar Már Sigurjónsson leikmaður Vals slapp einn í gegn en hitti boltann illa og skaut í hliðarnetið. Fimm mínútum síðar fékk Alexander Magnússon, leikmaður Grindavíkur, að líta gula spjaldið fyrir að fella Baldur Aðalsteinsson rétt fyrir utan teig þegar hann var við það að sleppa einn í gegn. Þegar liðin gengu til búningsherbergja var enn markalaust, 0-0.
Seinni hálfleikurinn var töluvert hressari en sá fyrri. Gestirnir komust yfir á 58. mínútu þegar Danny König skoraði auðvelt mark eftir klaufaskap í vörn Grindvíkinga. Markið dró örlítið úr leikgleði Grindvíkinga sem áttu erfitt með að skapa sér færi. Þeim gulu tókst þó að koma boltanum inn, í fyrsta skipti í sumar, á 69. mínútu þegar Gilles Ondo lagði boltann í netið eftir góða sendingu frá Grétari Ólafi Hjartarsyni. Valsmenn voru þó ekki lengi að svara fyrir sig því innan við mínútu eftir mark heimamanna var Jón Vilhelm Ákason búinn að koma gestunum yfir að nýju með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf frá Sigurbirni Hreiðarssyni. Eftir þetta reyndu Grindvíkingar að jafna aftur og voru þeir ansi nálægt því á 90. mínútu þegar Scott Ramsey atti þrumu skot í stöngina og Ray Jónsson fylgdi eftir en skotið rataði beint í fang Kjartans Sturlusonar í marki Valsmanna.
Næsti leikur Grindavíkur er gegn FH í Kaplakrikanum á mánudaginn.
Keflvíkingar mættu KR í Frostaskjóli í kvöld í markalausum leik. Leikurinn fór heldur hægt af stað en eftir því sem leið á leikinn fór fjörið að aukast. Fyrsta alvöru færið kom á 31. mínútu þegar Bjarni Guðjónsson skaut viðstöðulaust að marki Keflvíkinga en Ómar gerði vel í markinu og kom í veg fyrir að heimamenn kæmust yfir. Þrem mínútum síðar átti Jóhann Birnir, leikmaður Keflavíkur, þrumuskot beint í þverslánna. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks skiptust liðin á að sækja en tókst ekki að skora og því var markalaust í hálfleik.
Eftir sex mínútna leik í síðari hálfleik meiddist Ómar Jóhannsson markmaður Keflvíkinga. Innná í hans stað kom Árni Freyr sem var að leika sinn fyrsta leik með meistaraflokki. Eftir þetta var leikurinn heldur bragðdaufur en á lokamínútunum sóttu Keflvíkingar stíft. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka fengu þeir fjórar hornspyrnur í röð en tókst ekki að nýta þær. Síðasta færi leiksins átti svo Björgólfur Takefusa er hann náði skoti á mark Keflavíkur á 92. mínútu en Árni Freyr gerði vel í markinu og sá við skoti Björgólfs. Lokatölur því 0-0 í heldur bragðdaufum leik í Frostaskjóli. Næsti leikur Keflavíkur er gegn Selfossi á Njarðtaksvellinum á sunnudaginn klukkan 16.