Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Enn eitt jafnteflið hjá Keflvíkingum
Sindri skorar fyrra mark sitt í leiknum. Mynd/HBB
Sunnudagur 15. júní 2014 kl. 22:45

Enn eitt jafnteflið hjá Keflvíkingum

Fjörugur leikur á Nettóvellinum

Keflvíkingar máttu sætta sig við fjórða jafnteflið í röð í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Að þessu sinni var niðurstaðan 2-2 jafntefli gegn Stjörnumönnum á Nettóvellinum. Sindri Snær Magnússon skoraði bæði mörk Keflvíkinga í leiknum í kvöld. Í síðustu fjórum leikjum hafa Keflvíkingar náð forystu sem þeir hafa síðan misst niður í jafntefli.

Keflvíkingar voru ívið betri aðilinn í fyrri hálfleik og nokkrum sinnum náðu þeir að skapa sér ágætis færi. Fátt markvert gerðist þó í fyrri hálfleik og staðan 0-0 að honum loknum. Það var svo miðjumaðurinn Sindri sem skoraði fyrsta mark leiksins og kom Keflvíkingum yfir. Sindri fékk boltann óvænt í markteignum eftir mistök Stjörnumanna og afgreiddi hann snyrtilega í hornið með vinstri fæti, einkar vel klárað. Það var svo um 10 mínútum síðar að Keflvíkingar sofnuðu á verðinum og rangstöðugildra þeirra brást. Stjörnumenn nýttu sér það og skoruðu laglegt mark eftir stungusendingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svo virtist sem Keflvíkingar hafi verið slegnir út af laginu en skömmu síðar gerðist Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga brotlegur í teignum, vítaspyrna niðurstaðan og gult spjald á Harald. Úr henni skoruðu Stjörnumenn og komust í 1-2. Sindri Snær maður leiksins hjá heimamönnum, var ekki á því að gefast upp og lét vaða á markið í næstu sókn af löngu færi. Boltinn flaug framhjá Ingvari Jónssyni í markinu og staðan því 2-2 og fjör að færast yfir áhorfendur á Nettóvellinum.

Ekki tókst að skora sigurmark í leiknum og niðurstaðan jafntefli, það fjórða í röð hjá Keflvíkingum. Þeir svartklæddu eru nú í 3. sæti deildarinnar með 13 stig.

Elías Már var sprækur í sóknarleik Keflvíkinga.