Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Enn eitt jafntefli Keflavíkur á heimavelli
Mánudagur 8. ágúst 2005 kl. 03:15

Enn eitt jafntefli Keflavíkur á heimavelli

Keflavík missti niður eins marks forystu gegn Þrótti þegar liðin gerðu jafntefli, 3-3, í Landsbankadeild karla í kvöld.

Í rauninni máttu Keflvíkingar þakka fyrir að hafa komist yfir eftir að hafa lent visvar undir í leiknum, 0-1 og 1-2, en fyrsta mark gestanna skoraði enginn annar en Þórarinn Kristjánsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur. Hann fékk sendingu inn á teig og skoraði með föstu skoti framhjá Ómari Jóhannssyni í marki Keflavíkur.

Þórarinn skoraði markið á 26. mínútu en þar áður höfðu Keflvíkingar ráðið leiknum lengst af og fengið nokkur færi. Það besta átti Hörður Sveinsson en hann fékk háan bolta inn í teiginn en Fjalar Þorleifsson varði frábærlega í marki Þróttara eins og hann átti eftir að gera oft í leiknum.

Eftir markið hljóp kraftur í lærisveina Atla Eðvaldssonar og pressuðu þeir stíft, en Keflvíkingar náðu aftur stjórn á leiknum og jöfnuðu áður en langt um leið. Boltinn féll fyrir fætur Harðar eftir að Fjalar hafði varið skot/sendingu Hólmars Rúnarssonr í slá. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Hörð sem skallaði í markið af stuttu færi.

Eftir það bökkuðu Þróttarar en máttu þakka sínum sæla fyrir að lenda ekki undir á 36. mín því mikil orrahríð gekk yfir mark þeirra þar sem Hörður, Guðmundur Steinarsson, Kenneth Gustavsson og Jónas Guðni Sævarsson skutu góðum skotum að marki en varnarmenn og Fjalar komust fyrir þau.

Skömmu fyrir lok háfleiksins átti Hólmar gott skot sem varnarmenn vörðu á línu og skömmu síðar var flautað. Keflvíkingar máttu teljast óheppnir að vera undir eftir að hafa stjórnað leiknum mestallan hálfleikinn.

Þórarinn átti fyrsta færi seinni hálfleiksins en knötturinn hafnaði í varnarmönnum og fór yfir markið.

Hörður var enn á ferðinni á 53. mínútu þegar hann átti gott skot, niðri við stöng, en Fjalar varði óhemjuvel. Strax eftir hornspyrnu Keflvíkinga komust Þróttarar í upphlaup og sýndu varnarmenn heimaliðsins fádæma kæruleysi og fékk Joszef Maruniak nægan tíma til að stilla skotfótinn inni í teig og setti boltann fast í netið án þess að Ómar kæmi við vörnum.

Á næstu mínútum sóttu Keflvíkingar í sig veðrið, enda mikilvæg stig í baráttunni um Evrópusæti í hættu. Reyndu sóknarmenn þeirra á Fjalar sem stóð sína pligt með sóma og hleypti engu inn fyrir sig.

Á 78. mínútu fannt loks glufa þegar Guðmundur slapp inn í teig og sýndi óeigingirni með því að renna boltanum út í teig þar sem varamaðurinn Simun Samuelson kom aðvífandi og átti ekki í vandræðum með að skora í sínum fyrsta leik.

Símun var ekki hættur og toppaði frábæra innkomu með því að leggja upp annað mark Harðar mínútu síðar. Hann kom inn af vinstri kantinum og gaf stutta fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Hörður renndi sér inn og skaut óverjandi skoti yfir Fjalar.

Tíu mínútur voru til leiksloka og heimamenn komnir í vænlega stöðu. Nú þyrfti bara að halda sönsum í vörninni en það gekk ekki eftir. Hin hripleka vörn Keflavíkur missti einbeitinguna á 85. mínútu með þeim afleiðingum að Haukur Páll Sigurðsson fékk opið skotfæri frá vítateigslínu og setti boltann upp í fjærhornið.

Eftir frísklegar en tíðindalitlar lokamínútur lauk þessum spennandi og skemmtilega leik með jafntefli. Þórarinn Kristjánsson sagði sína menn sátta við stigið en þó væri sárt að missa forystu tvisvar niður. Mark á sínum gamla heimavelli yljaði þó um hjartaræturnar.

Keflvíkingar voru ekki eins glaðir þar sem þetta verða að teljast tvö stig í súginn. Ef lið ætlar að vera með í toppbaráttunni verða þrjú mörk á heimavelli að duga til sigurs.

„Þau geta reynst okkur dýr þessi jafntefli á heimavelli,“ sagði Hörður í samtali við Víkurfréttir. „ Ef við hefðum spilað eins og við ættum í þeim værum við í fínum málum í toppbaráttunni í dag.“

Kristján Guðmundsson, þjálfari tók í sama streng. „Þetta er ótrúlega svekkjandi og í raun óþolandi að fá svona mörg mörk á sig á heimavelli. Það er enginn að taka af skarið í varnarleiknum og það er atriði sem við verðum að laga.“

Þess má geta að leikur Grindavíkur og ÍBV sem átti að fara fram í kvöl frestast til 15. ágúst v. veðurs.

VF-myndir/Þorgils

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024