Enn eitt áfallið hjá Grindvíkingum
Grindvíkingar töpuðu sínum sjötta leik í röð í gærkvöldi er þeir heimsóttu Hauka á Ásvelli í
Haukar hófu leikinn af krafti í gær og gerðu 30 stig í fyrsta leikhluta gegn 22 frá Grindavík. Staðan í hálfleik var 47-39 Haukum í vil en Grindvíkingar minnkuðu muninn í 59-58 fyrir síðasta leikhlutann. Lokaleikhlutinn var svo jafn og spennandi en það var Wayne Arnold, Bandaríkjamaðurinn í liði Hauka, sem gerði síðustu stig leiksins og kom Haukum í 87-86.
Friðrik Ragnarsson og lærisveinar hans í Grindavíkurliðinu hafa ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu og þykja ekki líklegir til afreka þessa dagana. Senn líður að undanúrslitum Lýsingarbikarsins þar sem Grindvíkingar mæta ÍR í Röstinni. Grindvíkingar eiga bikartitil að verja og ætli þeir sér ekki að missa hann út í hafsauga verða þeir að taka sig saman í andlitinu.
Í gær var Roni Leimu atkvæðamestur í liði Hauka með 22 stig en Calvin Clemmons gerði 21 stig og tók 16 fráköst í liði Grindavíkur.
VF-mynd/ Stefán Borgþórsson - Roni Leimu sækir í átt að körfu Grindavíkur í gær, Steven Thomas er til varnar.