Enginn vill vera Scottie Pippen
- Reggie Dupree gerir það sem til þarf og sækist ekki eftir sviðsljósinu.
Reggie Dupree innsiglaði sigur Keflavíkur gegn fimmföldum meisturum KR í annarri umferð Domino’s-deildar karla í körfubolta. Hann skoraði sex stig gegn Njarðvík í fyrstu umferð en hrökk í gang á heimavelli þegar á reyndi og skoraði tíu stig í röð í fjórða leikhluta og tólf af sínum nítján í leikhlutanum gegn KR.
Maður hefur á tilfinningunni að hann geti mun meira sóknarlega. Reggie virðist mikill liðsmaður sem leggur áherslu á varnarleikinn þar sem hann er meðal þeirra bestu í deildinni. Skotum hans fyrir utan þriggja stiga línuna hefur fjölgað ár hvert í úrvalsdeild. Hann mætti þó alveg skjóta meira. „Þú hittir naglann á höfuðið. Ég er ekki hrifinn af sviðsljósinu. Ég geri það sem þarf til þess að klára verkið. Þjálfararnir hvetja mig til þess að skjóta meira. Ég hugsa oft þannig að mörg lið hafa menn sem vilja vera Michael Jordan, en ekki nógu marga sem vilja vera Scottie Pippen,“ segir Bandaríkjamaðurinn í stuttu spjalli við VF.
Einn sá besti í deildinni
„Ég hef alltaf lagt áherslu á varnarleik. Ef þú berð saman tvo leikmenn sem eru svipað fljótir og sterkir þá skerðu úr um hvor er betri ef hann getur stoppað hinn. Ég hef alltaf lagt mig fram við að stöðva þann besta í hinu liðinu. Láta þá fara út fyrir sinn þægindaramma. Mörgum líkar ekki þessi vinna, en einhver verður að vinna hana.“ Reggie veit að hann er meðal bestu varnarmanna deildarinnar og er ófeiminn við að viðurkenna það. „Stundum eru dómarar og aðrir ekki sammála því,“ segir hann og hlær. Það eru ekki margir leikmenn sem valda honum vandræðum og hann er kokhraustur þegar kemur að varnarleik. „Hann má vera það enda einn af þeim betri, ef ekki sá besti sem ég hef þurft að kljást við hérna heima,“ segir landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson, samherji Reggie. Hann hefur leikið sem atvinnumaður í sterkustu deildum Evrópu. „Hann tekur því persónulega ef hann á að stoppa einhvern sérstakan í hinu liðinu,“ bætir Hörður við.
Varðandi leikinn gegn KR þá endaði þá endaði þetta einfaldlega í hans höndum. „Ef aðrir eru ekki að finna sig þá stíg ég upp,“ segir Reggie en fyrsta þriggja stiga karfan hans kom á góðum tíma til þess að halda Keflavík í leiknum. Hann hikaði þó við að skjóta aftur. „Ég var að gera það upp við mig hvort ég ætti að skjóta í annað sinn. Þeir höfðu átt gott áhlaup og þú mátt ekki gera mörg mistök gegn svona liði. Ég hafði hitt einu og ákvað að láta vaða þar sem ég var í stuði. Sú þriðja var það sem maður kallar „Heat Check“ það skot þurfti að fara upp. Í fjórða sinn kom tækifæri á þristi en ég ákvað að keyra á körfuna þar sem þeir myndu líklega leggja allt kapp á að stoppa skotið.“
Reggie á ekki von á því að nú opnist allar flóðgáttir og hann verði þungamiðja sóknarleiks Keflvíkinga. „Ég geri það sem er til ætlast af mér. Ef Sverrir biður mig um að gera eitthvað þá geri ég það. Það er nóg af leikmönnum til þess að skjóta. Ég er sveitastrákur frá Alabama, á mínum heimaslóðum á maður að vera sterkur og spila af hörku. Vörnin kom bara þegar maður spilar með eldri strákum. Þannig vinnur maður sér inn rétt til þess að gera eitthvað á vellinum,“ segir þessi beinskeytti leikmaður að lokum.