Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Enginn stjörnuleikur hjá Keflavík sem hélt ekki haus í síðari hálfleik - jafntefli gegn Stjörnunnni 1:1
Þriðjudagur 2. júní 2009 kl. 12:32

Enginn stjörnuleikur hjá Keflavík sem hélt ekki haus í síðari hálfleik - jafntefli gegn Stjörnunnni 1:1

- einbeitingarleysi í lokin kostaði sigurinn. Stjörnumenn frískir og áttu skilið stigið

„Það var svekkjandi að fá þetta gula spjald og missa þannig af leiknum gegn KR og einnig að halda þetta ekki út. Það var dapurt að fá markið á lokamínútunni,“ sagði Guðjón Árni Antóníusson, fyrirliði Keflavíkur eftir 1:1 jafntefli gegn Stjörnunni í Pepsi deildinni á Sparisjóðsvellinum í gærkvöldi. Hann lék sinn 100. leik en mun sennilega ekki muna hans með hlýjum hug því hann fékk að líta rauða spjaldið rétt fyrir leikslok, nokkrum mínútum áður en gestirnir jöfnuðu.

Keflvíkingar voru mun betri í fyrri hálfleik og Hörður Sveinsson skoraði gott mark um miðjan hálfleikinn en  Stjörnumenn áttu þó sína spretti og skoruðu hér um bil í næstu sókn á eftir marki Keflavíkur. Bjarni Jóhannsson, þjálfari þeirra sagði að menn þar á bæ hefðu verið sáttir að vera bara einu marki undir.
Í síðari hálfleik mættu Stjörnumenn dýrvitlausir og sýndu Keflvíkingum í tvo heimana með því að vera með yfirhöndina allan tímann. Mörg löng innköst gerðu heimamönnum erfitt fyrir og þeir voru oft í vandræðum í vörninni þegar boltinn kom langt inn í teig. Traustur markvörður og sterk vörn björguðu oft en á 91. mínútu brustu gáttir og fyrsta mark á Keflavík á heimavelli leit dagsins ljós.
Skömmu áður var Guðjón Árni rekinn út af með annað gult spjald þegar hann var full ágengur við markvörðinn í markteig Stjörnunnar. VF á gott myndskeið sem sýnir þetta vel og af því er erfitt að dæma hvort Kristinn Jakobsson, dómari hafi haft rétt fyrir sér. En dýrt var spjaldið því það munar um fyrirliðann í vörninni sem brást fimm mínútum síðar.

Þó erfitt sé fyrir heimamenn að sætta sig við að halda ekki hreinu þá er ekki hægt annað en að segja að þetta hafi verið sanngjarnt því Keflvíkingar voru arfaslakir í síðari hálfleik. „Við hefðum átt að gera betur í lokin. Það vantaði einbeitingu. Menn verða að gera sér  grein fyrir því að leikurinn er 90 mínútur plús uppbótarmínútur en ekki 85 mínútur. Við þurfum að fara í netta naflaskoðun og við munum gera það fyrir KR leikinn í Frostaskjóli eftir tvær vikur. Það er náttúrulega glatað að missa af  þeim leik,“ sagði Guðjón.
Kristján Guðmundsson var daufur eftir leikinn og sagði að liðið hefði átt að klára leikinn í fyrri hálfleik. „Sóknarmennirnir héldu ekki boltanum og náðu ekki að byggja upp sóknir. Við eigum að gera miklu betur og þetta var ásamt hluta úr Blikaleiknum það slakasta sem Keflavík hefur sýnt í sumar. Við áttum ekki næga orku eftir. Það hefur verið mikið álag á vissum leikmönnum og það kom í ljós í þessum leik,“ sagði þjálfarinn.
Keflavík er í 3.-5. sæti með 11 stig en liðið hefur gert jafntefli í tveimur síðustu leikjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hörður skorar (efri mynd) og hér fagnar hann skemmtilega. Á neðri myndinni liggur Guðjón Árni í markteignum eftir að hafa verið hrint niður af leikmanni Stjörnunnar sem taldi að fyrirliðinn hafi sparkað í markvörðinn í teignum. Atvikið sést vel á myndskeiði í VefTV sem er væntanlegt á vefinn í dag. Víkurfréttamyndir/Páll Orri Pálsson.