Emil Daði með þrennu í Tyrklandi
Knattspyrnulið Grindavíkur er statt í æfingaferð í Tyrklandi um þessar mundir og hefur þegar leikið þrjá leiki. Fyrsti leikurinn var gegn liði í 2. deild í Rússlandi og voru lokatölur 1-1 í þeim leik en Jóhann Þórhallsson gerði mark Grindvíkinga í leiknum.
U 17 ára lið Grindavíkur lék gegn hinu fornfræga félagi Lokomotiv Moskva og hafði betur 3-2 þar sem Emil Daði Símonarson gerði þrennu. Sannarlega glæsilegur árangur enda er Lokomotiv Moskva risastór klúbbur.
Meistaraflokkur Grindavíkur lék svo tvo leiki til viðbótar, þann fyrri gegn tyrknesku 3. deildarliði og hafði Grindavík betur 12-1. Síðari leikurinn var gegn Valsmönnum og leiddu Valsmenn í hálfleik 2-0 en með seiglu komust Grindvíkingar yfir 3-2 þar sem þeir Óskar Örn Hauksson, Guðmundur Atli og Eysteinn Hauksson gerðu mörkin en tvö þeirra komu úr vítaspyrnu. Það var svo Garðar Gunnlaugsson sem jafnaði metin fyrir Val 3-3 og þar við sat. Grindvíkingar eru væntanlegir heim um helgina.
VF-mynd/JBÓ: Frá leik Grindavíkur og Vals á síðustu leiktíð.