Embla farin frá Grindavík

Leikstjórnandi Grindavíkur í 1. deild kvenna í körfu, Embla Kristínardóttir, er farin frá liði Grindavíkur. Embla hefur verið sterk í liðinu í vetur og hefur meðaltal hennar í leikjum verið 21 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Hún er einnig efst í framlagi leikmanna fyrstu deildarinnar með 27,2 í leik. Þetta kemur fram á karfan.is.

Embla sagði í samtali við karfan.is að ástæða brottfarar hennar væri sú að henni og spilandi þjálfara liðsins, Angelu Rodriguez, kæmi ekki saman og þar af leiðandi hafi hún ákveðið að stíga til hliðar. Þegar Embla er spurð hvað hún muni gera í framhaldinu segir hún ekkert staðfest í þeim efnum.