EM hópurinn klár!
11 dagar í opnunarleikinn í Berlín
Craig Pederson, landsliðsþjálfari karla í körfubolta, tilkynnti í hádeginu þá 12 leikmenn sem munu leika fyrir Íslands hönd á Evrópumóti landsliða í körfubolta sem hefst eftir 11 daga. Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson er eini Suðurnesjamaðurinn í liðinu.
Riðill Íslendinga verður leikinn í Berlín í Þýskalandi og munu okkar menn hefja mótið með því að reyna sig gegn gestgjöfunum laugardaginn 5. september.
Hópinn skipa eftirtaldir leikmenn:
3 Martin Hermannsson
4 Axel Kárason
5 Ragnar Ágúst Nathanaelsson
6 Jakob Örn Sigurðarson
8 Hlynur Bæringsson
9 Jón Arnór Stefánsson
10 Helgi Már Magnússon
13 Hörður Axel Vilhjálmsson
14 Logi Gunnarsson
15 Pavel Ermolinskij
24 Haukur Helgi Pálsson
29 Ægir Þór Steinarsson
Sigurður Gunnar Þorsteinsson, Sigurður Þorvaldsson og Brynjar Björnsson voru ekki fyrir valinu að þessu sinni.
Það eru þó fleiri Suðurnesjamenn sem munu taka þátt í mótinu með einum eða öðrum hætti en styrktarþjálfari landsliðsins er Gunnar Einarsson, leikmaður Keflavíkur, og þá mun körfuknattleiksdómarinn Sigmundur Már Herbertsson dæma í riðlinum sem leikinn verður í Króatíu og verður þar með fyrsti íslenski körfuknattleiksdómarinn til að hlotnast sá heiður.
Víkurfréttir munu fjalla ítarlega um mótið og birta viðtöl við þá Loga Gunnarsson, Gunnar Einarsson og Sigmund Má Herbertsson í næstu viku en auk þess mun blaðamaður Víkurfrétta skrifa frá Berlín á meðan riðlakeppnin stendur yfir.