Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Eltist við nýja drauma
Laugardagur 6. febrúar 2016 kl. 09:21

Eltist við nýja drauma

Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson fór frá Róm til New York

Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson lék á Ítalíu síðustu tvö ár með liði Stella Azzura í Rómarborg við góðan orðstír. Nú 18 ára gamall, er hann kominn í háskólaboltann þar sem hann spilar og nemur við Marist University í New York fylki. Hann segir að sér hafi gengið vel að aðlagast nýjum skóla í nýju landi en hann finnur að körfuboltinn er talsvert öðruvísi í Bandaríkjunum en á Ítalíu.

„Það hefur gengið nokkuð vel. Við erum sjö strákar á fyrsta ári og við erum rosalega nánir allir saman og stöndum með hvor öðrum. Skólinn er alveg frábær þar sem háskólasvæðið (e. campus) er sérstaklega flott.“ Það var ein af aðalástæðum þess að Kristinn valdi skólann en nóg er um að vera og stutt til stórborgarinnar New York sem er í eins og hálfs tíma fjarlægð með lest.

Public deli
Public deli

Kristinn hefur aðlagast vel í körfuboltanum. Hann er að spila mikið og er þegar orðinn leiðtogi hjá liðinu. Hann segir það hjálpa sér mikið að þjálfari liðsins spili sömu sókn og hann var vanur að spila hjá Einari Árna Jóhannssyni í Njarðvík.

Kristinn viðurkennir að í upphafi tímabils hafi hann átt í smávægilegum erfiðleikum. Það hafi líklega bara verið stress sem hvarf fljótlega. Hann er ánægður með sinn leik núna enda er hann með stórt hlutverk hjá liðinu, sem er óvanalegt fyrir leikmann á fyrsta ári.

Einn besti skotmaður liðsins

Kristinn hefur leyfi til þess að skjóta mikið fyrir utan en þjálfarinn segir hann vera einn besta skotmann liðsins. „Hann segir að ég eigi að skjóta alltaf þegar ég er með opið skot annars myndi hann taka mig útaf þannig ég er að sjálfsögðu með smá skotleyfi frá þjálfaranum,“ segir Kristinn sem hefur tekið tæplega sjö þriggja stiga skot í leik, næstmest leikmanna liðsins. Kristinn hefur strax tekið að sér hlutverk leiðtoga í liðinu.

„Mitt hlutverk myndi ég segja er að vera svokallaður leiðtogi og reyna að lyfta liðsfélögum mínum upp, svo þarf maður að spila góða vörn og setja skotin sín niður.“

Skóli: Marist University í New York fylki
Stig: 8.7 (3. í liði)
Mín: 33.5 (3. í liði)
Fráköst: 4.3 (3. í liði)


Til stóð að Kristinn myndi leika með Njarðvík i efstu deild eftir að dvöl hans á Ítalíu lauk, en það hefur hann ekki gert áður þar sem hann fór mjög ungur erlendis. Körfuboltaáhorfendur hérlendis hafa því lítið séð til kauða.

„Ég er stærri þristur en flestir í þeirri stöðu. Mér finnst ég vera góður dripplari og ég get séð völlinn vel. Mér finnst ég líka vera góður skotmaður, en flestir segja að minn besti kostur sé hversu góður leiðtogi ég er. Það er kannski eitthvað sem ég tek ekki eftir sjálfur,“ segir Kristinn þegar blaðamaður biður hann um að lýsa sér sem leikmanni.

Kristinn hafði alltaf dreymt um að spila í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Nú þegar sá draumur er orðinn að veruleika er um að gera að stefna hærra. „Það þýðir bara að þú þarft að setja þér stærri markmið núna þegar þú hefur upplifað draum þinn. Þannig að nú þarf ég nýjan draum til þess að elta,“ segir Kristinn.

 


Kristinn hefur fengið stórt hlutverk í sóknarleik liðsins og er þegar orðinn leiðtogi á vellinum.

Á skólalóðinni: Kristinn segir aðstæður á heimavistinni (e. campus) vera eina af megin ástæðum fyrir því að hann valdi skólann.

Kristinn ef meðal leiðtoga í liðinu í stigum, fráköstum og flestum mínútum.