Elsa bætti heimsmeistaratitli í safnið og setti þrenn heimsmet
Kraftlyftingakonan Elsa Pálsdóttir er óstöðvandi þessa dagana en hún bætti heimsmeistaratitli og þremur heimsmetum á afrekalistann sinn í vikunni.
Elsa keppti á heimsmeistaramóti í klassískum kraftlyftingum í Halmstad í Svíþjóð á miðvikudag þar sem hún keppir í öldungaflokki M3 (-76 kg flokki kvenna, 60 ára og eldri). Árangur hennar í mótum að undanförnu hefur vakið athygli en Elsa byrjaði seint í klassískum kraftlyftingum og hefur heldur betur blómstrað í greininni. Hún hefur sett fjölda meta; Íslandsmet, Evrópumet og nú síðast bætti hún fleiri heimsmetum í pakkann.
Setti þrenn heimsmet
Elsa lyfti 120 kg í hnébeygju í fyrstu tilraun sem var góð og gild. Önnur lyftan var tilraun til að bæta eigið heimsmet um 2,5 kg en það gekk því miður ekki upp, í þriðju tilraun lyfti Elsa 132,5 kg og var sú lyfta gild og því nýtt heimsmet í hnébeygju.
Í bekkpressu byrjaði Elsa á að lyfta 55 kg í fyrstu tilraun, því næst lyfti hún 60 kg sem var jöfnun á hennar besta árangri. Elsa reyndi að lokum við 62,5 kg í þriðju lyftu en það gekk því miður ekki upp.
Í réttstöðu lyfti Elsa 145 kg í fyrstu tilraun. Í annari tilraun reyndi hún að bæta eigið heimsmet um 2,5kg en það gekk því miður ekki upp en í þriðju tilraun safnaði Elsa allri sinni orku og reif 160 kg upp úr gólfinu og bætti þar með eigiið heimsmet um 2,5kg.
Hnébeygja 120 – 132,5 (ógilt) – 132,5
Bekkpressa 55 – 60 – 62,5 (ógilt)
Réttstaða 145 – 160 (ógilt) – 160
Elsa sigraði flokkinn sinn með 352,5 kg í samanlögðu sem er einnig nýtt heimsmet í samanlögðum árangri. Heildarárangur Elsu á mótinu var því: gullverðlaun í hnébyegju, silfurverðlaun í bekkpressu, gullverðlaun í réttstöðu, þrenn heimsmet og var Elsa krýnd heimsmeistari í -76kg flokki kvenna (M3 öldunga) í klassískum kraftlyftingum.
Á Facebook-síðu sinni segir Elsa að sér finnist þetta er pínu óraunverulegt en staðreynd engu að síður. „Eftir afrakstur míns fyrsta HM í kraftlyftingum er mér efst í huga stolt og þakklæti. Ég er þakklát fyrir að hafa heilsu til að sinna áhugamáli mínu, ég er þakklát fyrir allt fólkið í kringum mig sem styður mig og hvetur og ég er þakklát fyrir alla þá sem lagt hafa mér lið á þessari vegferð.“
Þá þakkar Elsa þeim sem hafa stutt við bakið á henni á þessari vegferð hennar sem virðast engin takmörk sett.