Ellefu titlar í hús að loknu ÍM 50
Sundmenn ÍRB fóru á kostum sem fyrr á síðasti degi ÍM 50. Alls unnust fjórir íslandsmeistaratitlar í lokahlutanum og fjölmörg önnur verðlaun. Í heildina vann liðið því til 11 titla á mótinu.
Í dag vann Lilja María Stefánsdóttir 200m flugsund kvenna og Soffía Klemenzdóttir vann brons. Kristinn Ásgeir Gylfason gerði slíkt hið sama og vann 200m flugsund karla og Rúnar Ingi Eðvarðsson vann brons. Í 100m baksundi kvenna vann Margrét Lilja Margeirsdóttir bronsverðlaun. Davíð Hildiberg Aðalsteinsson bætti við sínum fjórða titli þegar hann vann öruggan sigur í 100m baksundi karla og þar vann Guðni Emilsson brons. Í 200m bringusundi kvenna þá vann Lilja Ingimarsdóttir bronsverðlaun og Ólöf Edda Eðvarðsdóttir gerði sér lítið fyrir og setti glæsilegt Íslandsmet meyja í sama sundi þar sem hún endaði í 4. sæti. Frábært sund hjá Ólöfu sem er eingöngu á tólfta aldursári, en í dag tvíbætti hún gamla meyjametið í 200m bringusundi fyrst í undanrásum um þrjár sekúndur og svo aftur í úrslitunum um fjórar sekúndur. Glæsileg bæting á metinu á einum degi eða alls sjö sekúndur sem er hreint út sagt frábært. Gunnar Örn Arnarson vann bronsverðlaun í 200m bringusundi karla. Loks var komið að 200m skriðsundi karla þar sem Birkir Már Jónsson vann með gríðarlegum yfirburðum á flottum tíma og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson vann til bronsverðlauna. Í 4 x 100m fjórsundsboðsundunum höfnuðu síðan sveitir okkar fólks í bæði karla og kvennaflokki í þriðja sæti, segir í frétt frá ÍRB.