Elías skoraði í Hollandi
Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson skoraði eitt mark í 1:4 tapi Excelsior gegn Genk í æfingaleik í Hollandi en ný leiktíð hefst í lok ágúst. Elías segir að æfingar séu á fullu fyrir komandi leiktíð og æft sé tvisvar á dag.
Elías átti flottan sprett í lok síðasta keppnistímabils með Excelsior og var hann þá orðaður við stærri lið í Evrópu og Englandi en hann er enn í Rotterdam.
„Já, okkur líður bara vel hérna í notalegu hverfi. Við fórum heim til Íslands í júní og vorum í tvær vikur en nú er bara æft á fullu og stutt í að deildin hefjist að nýju.“
Elías segir að hann finni ekki mjög miklar breytingar vegna kórónufaraldurs en leikmenn muni þó byrja á því að fara í próf einu sinni í viku þegar tímabilið hefst.
Í æfingaleiknum skoraði Keflvíkingurinn laglegt mark eins og sjá má í myndskeiðinu.