Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Elías Már sagður tvífari Justin Bieber
Elías Már Ómarsson.
Föstudagur 6. febrúar 2015 kl. 08:28

Elías Már sagður tvífari Justin Bieber

– þjálfari Vålerenga segir að stuðningsmennirnir eigi eftir að elska Elías

Norskir fjölmiðlar fylgdust vel með þegar Elías Már Ómarsson mætti á sína fyrstu æfingu hjá Vålerenga í Noregi.  Blaðamaður Dagbladet líkti honum við söngvarann Justin Bieber en Keflvíkingurinn var ekki alveg tilbúinn að samþykkja þá samlíkingu. 

Dagbladet segir að hinn tvítugi Elías Már hafi vakið mikla athygli á æfingunni og sýnt takta sem komu mörgum á óvart. Að sjálfsögðu var hann borinn saman við Viðar Örn Kjartansson sem var seldur til Jiangsu í Kína nýverið en Viðar Örn var markakóngur í norsku úrvalsdeildinni á sinni fyrstu leiktíð með Oslóarliðinu þar sem hann skoraði 25 mörk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sönghæfileikar Viðars voru nokkuð mikið í fréttum í Noregi þar sem hann söng Creed lagið My Sacrifice til fjáröflunar og var hann hann kallaður poppstjarnan af liðsfélögum sínum eftir það. Elías Már segir að hann ætli ekki að feta í þau fótspor. „Það getur vel verið að ég sé eitthvað líkur Justin Bieber en ég geri það ekki markvisst. Ég hef alltaf litið svona út,“ sagði Elías Már í viðtali við Dagbladet.

Elías segir að hann finni ekki fyrir neinni pressu að fylla skarðið sem Viðar Örn skilur eftir sig. „Kjetil Rekdal þjálfari hefur sagt mér að ég sé ekki fenginn til þess að fylla skarðið. Ég á að einbeita mér að því að verða betri og komast í liðið. Ef það tekst þá er næsta markmið að skora eins mikið og ég get,“ segir Elías.

Rekdal, sem er einn þekktasti landsliðsmaður Noregs og var lengi atvinnumaður í Þýskalandi, segir að Elías sé fjölhæfur og geti leikið nánast allar stöðurnar í framlínunni. Á báðum köntunum, sem „tía“ í holunni fyrir aftan framherjann og einnig sem framherji sem er óskastaðan hjá Elíasi sem skoraði 7 mörk í 20 leikjum fyrir Keflavík í Pepsideildinni – þar sem hann lék að mestu sem kantmaður.  

Rekdal, sem var samherji Eyjólfs Sverrissonar hjá Herthu Berlín um tíma, segir að hinir kröfuhörðu stuðningsmenn Vålerenga eigi eftir að kunna vel að meta Elías Má. „Hann er þannig týpa að stuðningsmennirnir eiga eftir að kunna vel að meta hann.  Við fengum hann hingað vegna þess að hann er góður fótboltamaður en hann hefur einnig alla aðra kosti sem geta komið honum til góða í þessu verkefni,“ sagði Rekdal.