Elías hugsanlega á leið frá Vålerenga
Greint er frá því í norskum fjölmiðlum að framherjinn Elías Már Ómarsson sé hugsanlega að yfirgefa Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni. Keflvíkingurinn Elías hefur ekki verið að fá mörg tækifæri með liðinu að undanförnu og því er Vålerenga tilbúið að senda leikmanninn á lán eða selja hann fyrir rétta upphæð.
Elías samdi við félagið í byrjun árs 2015 og átti fínt tímabil í fyrra. Nú hefur samkeppnin um framherjastöðunar í liðinu harðnað og því er þessi staða komin upp. Félagið KFUM sem leikur í næstefstu deild er sagt áhugasamt um Elías. Framherjinn sem er 21 árs hefur skorað tvö mörk í 13 leikjum á tímabilinu.