Elías gerði 3 ára samning við Valerenga
Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson er á leið í atvinnumennsku í Noregi. Knattspyrnudeild Keflavíkur og norska liðið Valerenga hafa náð samkomulagi um kaupverð á Elíasi og er samningurinn til þriggja ára.
Þorsteinn Magnússon formaður Knattspyrnudeildar er ánægður með samninginn og sagðist ánægður fyrir hönd Elíasar sem er að hefja atvinnumannaferil sinn.
Elías var valinn í landslið Íslands sem lék æfingaleiki gegn Kanada í Flórída um áramótin. Elías þótti standa sig afar vel og ekki er ólíklegt að hann eigi eftir að leika fleiri leiki með landsliðinu. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra. Hann fór til Valerenga í október sl. til reynslu og það hefur greinilega gengið vel. Elías leysir Íslendinginn Viðar Örn Kjartansson af hólmi í framlínu norska liðsins en Viðar hefur gert samning við lið í Kína.