Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eldsumbrot er þema Grindvíkinga
Þeir eru sannarlega stórglæsilegir nýju varabúningarnir hjá Grindavík.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 4. maí 2021 kl. 20:38

Eldsumbrot er þema Grindvíkinga

Eldsumbrot er þemað í nýjum varabúningi Grindvíkinga sem var kynntur til sögunnar í dag

Það er óhætt að segja að Grindvíkingum hafi tekist einstaklega vel til með hönnun nýju búninganna en þeir tengjast því sjónarspili sem náttúruöflin hafa leikið í nánasta umhverfi Grindvíkinga að undanförnu.

Grindvíkingar kynna búninginn í samvinnu við Jóa Útherja nú rétt fyrir fyrstu leiki liðanna í Lengjudeildinni. Meistaraflokkur kvenna hefur leik á fimmtudag á útivelli gegn Aftureldingu en meistaraflokkur karla mæta Eyjamönnum á Grindavíkurvelli á föstudaginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavík hefur til fjölda ára leikið í bláum varabúningum en í tilefni af eldsumbrotunum sem hafa átt sér stað í nálægð við Grindavík var ákveðið að tengja nýjan búning við náttúruöflin sem eru þar allt um kring.

Í tilkynningu sem knattspyrnudeild sendi frá sér við tilefnið segir m.a.:

„Þeman í búningnum er nýstorknað hraun sem flæðir fram með kröftugan kvikugang beggja vegna. Bleiki liturinn vísar til rauðglóandi skýjaþoku sem hvílir yfir bænum að næturlagi. Búningurinn rammar vel inn þann nýja veruleika sem blasir daglega við okkur Grindvíkingum en veitir okkur Kraft, Eldmóð og Hugrekki.

Við vonum að nýr búningur falli vel í kramið hjá stuðningsmönnum, bæjarbúum og knattspyrnuáhugamönnum um land allt. Hér er aðeins stigið út fyrir þægindarammann og vonum við að nýr varabúningur færi okkar liðum gæfu á vellinum í sumar!“

Á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Grindavíkur er hægt að sjá glæsilegt kynningarmynd á nýju varabúningunum.