Eldskírn ungra Njarðvíkinga
Þrír keppendur frá Júdódeild Njarðvíkur, Bjarni Darra Sigfússon, Birkir Freyr Guðbjartsson og Sóley Þrastardóttir hafa unnið sér inn keppnisrétt á gríðarsterkt Reykjavík Judo Open 25. janúar n.k.
Á meðal þátttakenda verða fyrrum heims- og Evrópumeistari, Tagir Khaibulaev, ásamt núverandi evrópumeistara, Lukas Krpalek. Því er ljóst að njarðvísku keppendurnir munu fá sína eldskírn á þessu móti.
Bjarni Darri er ekki óvanur stórum mótum þar sem hann hefur bæði keppt á Budo Nord og svo Hilleröd Open. Bjarni, sem er einungis 15 ára, hefur staðið sig vel í hinum ýmsu bardagagreinum. Hann var annar á Íslandsmeistaramóti U15 í júdó, Íslandsmeistari í Brazilian jiu jitsu, íslenskri glímu og Taekwondo. Auk þess var hann í bikarmeistaraliði UMFN.
Þetta er fyrsta stórmót Birkis og Sóleyjar. Þau hafa bæði unnið til verðlauna og sigrað nokkur júdómót innanlands. Birkir hefur orðið haustmótsmeistari, vormótsmeistari og unnið til verðlauna á Íslandsmóti U18. Sóley er Bikarmeistari í Taekwondo sem og Íslandsmeistari í Brazilian jiu jitsu. Hún byrjaði aftur í haust að æfa júdó af krafti og skilaði það henni öðru sæti á haustmóti JSI í opnum flokki kvenna.
Sóley Þrastardóttir og Birkir Freyr Guðbjartsson.