Ekki viðræðuhæfur á keppnisdag
Þriðja stigakeppnin í motocrossi fer fram á Akureyri um helgina þar sem Suðurnesjamaðurinn Aron Ómarsson ætlar sér mikla hluti. Aron er í 4. sæti um þessar mundir í flokki MX1 en hann hefur fulla trú á því að hann geti haldið Íslandsmeistaratitlinum á Suðurnesjum. Núverandi meistari er Gylfi Freyr Guðmundsson frá Keflavík en þeir Aron æfa mikið saman. Gylfi getur ekki varið titil sinn í ár sökum þrálátra axlarmeiðsla en Aron er einbeittur og ætlar sér stóra hluti.
„Sá sem er í 2. sæti í Íslandsmótinu núna er fótbrotinn og verður ekki með á Akureyri um helgina svo ég stefni að því að komast ofar,“ sagði Aron í samtali við Víkurfréttir. Aron segist jafnan fá mikinn fiðring í magann um 2-3 vikum fyrir keppni og á keppnisdag sé hann vart viðræðuhæfur. „Ég er algjörlega í mínum eigin heimi á keppnisdegi enda eru þetta svakaleg átök þar sem við keppum á þungum og kraftmiklum hjólum,“ sagði Aron en Motocross er talin einhver erfiðasta íþróttagrein í heiminum og krefst gríðarlegs líkamlegs styrks.
Aron er nú í 4. sæti í Íslandsmótinu en efsti maður er aðeins 20 stigum á undan Aroni og á laugardag verða 75 stig í pottinum á Akureyri. Aron stefnir að því að hala inn sem flestum stigum og koma svo tvíelfdur til leiks í tvö síðustu stigamótin.
Að miklu er að keppa í ár fyrir Aron þar sem þrír bestu ökumenn landsins verða sendir út til Bandaríkjanna í september á mót sem kallast Motocross of Nations. Mótið í Bandaríkjunum er stærsta alþjóðlega mótið sinnar tegurndar í heiminum þar sem aðeins þeir bestu leiða saman fáka sína og um 100.000 áhorfendur leggja leið sína á mótsstað. „Mér þykir það líklegt að ég komist á mótið úti en það ræðst alveg eftir því hvort mér takist að halda heilsunni næsta mánuðinn,“ sagði Aron sem reynir að fara í ræktina tvisvar á dag á milli þess sem hann æfir sig á hjólinu.
[email protected]