Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ekki pláss fyrir alla Keflvíkinga í liðinu
Anna Ingunn Svansdóttir sækir að körfu Hauka. Tvíburasysturnar Sara og Bríet í vörn Haukanna. VF-myndir/PállOrri.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 4. mars 2021 kl. 12:48

Ekki pláss fyrir alla Keflvíkinga í liðinu

segir Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta sem tapaði fyrsta leiknum á tímabilinu

„Það er bara ekki pláss fyrir alla Keflvíkinga í liðinu. Við getum sagt að framleiðsla á körfuboltakonum í Keflavík hafi gengið frábærlega undanfarin mörg ár. En auðvitað vildum við fá Söru Rún til okkar en hún fékk miklu betra boð frá Haukum sem við gátum ekki keppt við. Það er í góðu lagi. Við erum með frábæran hóp, nógu sterkan til að verða Íslandsmeistarar,“ segir Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Domino’s deildarliðs Keflavíkur í körfubolta kvenna. Þrír Keflvíkingar eru í liði Hauka sem var fyrsta liðið til að leggja topplið Keflavíkur í Blue höllinni í gær.

Tvíburasysturnar Brét Sif og Sara Rún Hinriksdætur, sem eru aldar upp hjá Keflavík voru lykilleikmenn hjá Haukum í sigrinum á uppeldisfélagi þeirra. Þriðji Keflvíkingurinn í Haukum er Irena Sól Jónsdóttir. Saman skoruðu þær þrjár 30 stig af 75 stigum Hauka.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Stelpurnar gerðu allt rétt í leiknum en einn breytu er erfitt að stjórna en það er skotnýting. Þær hittu mjög illa, þetta er líklega versti leikurinn undir minni stjórn hvað það varðar en það gerist, bara spurning hvenær. Þannig að við erum ekki ósátt þrátt fyrir tapið. Það munaði ekki nema einu stigi í lokin og við með slökustu skotnýtingu sem við höfum upplifað, innan við 30% en venjulega er hún um 40%. Við höldum bara áfram í næsta leik með sömu markmið og við höfum gert í síðustu leikjum. Stelpurnar eru að standa sig frábærlega. Þær trúa og vita að þær eru góðar. Framfarirnar eru miklar og nokkrar af okkar stelpum hafa bætt sig ótrúlega mikið þannig að ég er bjartsýnn á framhaldið. Það er svo gaman hjá okkur. Ég hef langa þjálfarareynslu en ég hef aldrei haft eins gaman af því að þjálfa einn hóp eins og þennan,“ segir Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari toppliðs Keflavíkur.

Hér að neðan er myndasería úr fjörugum leik. 

Jón Halldór á fullu í leiknum.

Katla Rún Garðarsdóttir sækir að körfu Hauka. 

Daniella Morillo skoraði mest hjá Keflavík.

Keflavík-Haukar Domino's deild kvenna mars 2021