Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ekki að tapa sér í titildraumum
Þriðjudagur 15. júlí 2008 kl. 14:04

Ekki að tapa sér í titildraumum

Þórarinn Kristjánsson tryggði Keflvíkingum toppsæti Landabankadeildar karla í gær þegar hann gerði bæði mörk liðsins gegn Fram eftir að hafa komið inn af varmannabekknum þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Í viðtali við Víkurfréttir sagðist Þórarinn að sjálfsögðu ánægður með mörkin þó stigin þrjú skiptu meira máli.
 
„Þetta gekk erfiðlega hjá okkur til að byrja með. Framarar eru varnarlið og liggja aftur, en þeir brotna ef maður er bara þolinmóður.“
 
Fyrra mark Þórarins skoraði hann beint úr aukaspyrnu, en þrátt fyrir að hann hafi skorað fjöldan allan af mörkum fyrir Keflavík á sínum ferli hefur hann ekki verið þekktur sem aukaspyrnusérfræðingur.
 
„Nei, ég geri ekki mörg svoleiðis, en ég man eftir einu þannig að ég er allavegana kominn með tvö.“
 
Þórarinn hefur byrjað flesta sína leiki í sumar á bekknum en það hefur vakið athygli að undanförnu hve drjúgir varamenn Keflvíkinga hafa verið. Þórarinn segir það sýna styrk liðsins.
 
„Við erum með breiðan hóp og yfirleitt með þrjá til fjóra sókndjarfa leikmenn á bekknum þannig að við getum haldið út lengur en mörg önnur lið og það er okkar helsti styrkur í dag.“
 
Keflvíkingar eru sem fyrr segir í efsta sæti deildarinnar þegar keppni er hálfnuð, þremur stigum á undan FH. Nokkuð víst er að fáir bjuggust við því fyrirfram en Keflvíkingar hafa hreint ekki verið að slá af og verður fróðlegt að sjá hvernig fram heldur. Þórarinn segir liðsmenn þó ekki vera að tapa sér í titildraumum.
 
„Þetta er alveg frábært. Nú tökum við hins vegar bara einn leik í einu og erum ekkert að missa okkur í neina vitleysu. Við mætum Val í næstu umferð og það verður mjög erfiður leikur.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VF-mynd úr safni