Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ekkert stress á Grindvíkingum
Miðvikudagur 17. október 2018 kl. 09:45

Ekkert stress á Grindvíkingum

- Tveir leikmenn farnir og endurkoma Clinch líkleg - óvænt tap í Borgarnesi

Grindvíkingar létu frá sér tvo útlendinga sem voru að glíma við meiðsli. Terrell Vinson er að öllum líkindum með slitið ytra liðband og rifinn liðþófa. Hann er enn staddur hérlendis en Grikkinn Liapis er farinn af landi brott. „Það var meðvituð áhætta að fá hann til okkar. Hann kom fyrir lítinn pening og var að koma úr erfiðum meiðslum,“ segir Jóhann Ólafsson þjálfari Grindvíkinga í Domino’s-deild karla í körfubolta í samtali við VF um Grikkjann. Það var augljóst enda hafði hann ekki spilað mikið í þeim tveimur leikjum sem lokið er og ekki heldur lagt mikið í púkkið.

Hvað Vinson varðar þá vissu Grindvíkingar hvað þeir voru að fá en hann skilaði fínum tölum hjá Njarðvík í fyrra, 22 stig og tæp tíu fráköst. Hann var á svipuðum nótum en meiddist því miður í öðrum leik sem tapaðist í Borgarnesi. „Hefðum við hitt eðlilega í þeim leik þá hefðum við unnið örugglega, ef og hefði og allt það,“ sagði Jóhann er blaðamaður innti eftir viðbrögðum hvað varðar byrjun tímabilsins hjá gulklæddum. „Við erum ekki þar sem við viljum vera. Það eru um átta eða níu ný andlit í okkar hópi. Þetta fer ekkert vel af stað þannig séð. Sóknarlega erum við villtir og óskipulagðir og hittum illa. Tveir leikir búnir og ekkert stress þannig,“ segir þjálfarinn yfirvegaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingum er spáð sjötta sæti en þar enduðu þeir einmitt í fyrra. Þeir fóru svo í sumarfrí í lok mars eftir að Stólarnir sópuðu þeim úr úrslitakeppninni. „Við förum með þau markmið er að gera betur en í fyrra. Spár eru til gamans gerðar, þær fara inn um annað og út um hitt.“

Lewis Clinch er líklegur til þess að mæta í Röstina en ekkert er enn staðfest í þeim efnum. Hollendingurinn Jordy Kuiper er enn á launaskrá hjá Grindvíkingum enda leikið nokkuð vel. „Clinch er m.a. einn af þeim sem eru í sigtinu. Ég myndi augljóslega vilja bakvörð í okkar lið. Við ætlum að taka inn einn leikmann og ekkert vera að stressa okkur. Ef það dettur eitthvað í hendurnar á okkur þá skoðum við það. Það er bara meira en að segja það að finna leikmann sem hentar.“ Jóhann segist hafa verið sáttur við þá leikmenn sem voru að yfirgefa félagið. „Grikkinn kann alveg körfubolta. Hann var einfaldlega ekki klár og líkaminn fylgdi ekki alveg huganum.“

Laskaðir gegn Keflavík

Á fimmtudag mæta Keflvíkingar í Röstina en bæði lið hafa einn sigur og eitt tap í farteskinu eftir tvær umferðir. „Við erum að fara að spila við mjög gott lið. Við erum auðvitað laskaðir og allt það en það er alltaf gaman að spila gegn Keflavík. Þeir ætla sér stóra hluti. Við eigum alveg að geta keppt við Keflvíkingana eins og öll önnur lið,“ sagði Jóhann að lokum.