Eitt stig í vesturbænum
Hallgrímur Jónasson leysti Guðmund af í miðvarðarstöðunni og Magnús Sverrir Þorsteinsson fór í sóknina með Guðmundi Steinarssyni á meðan Stefán Örn Arnarson fór á hægri kantinn. Keflvíkingar leystu fjarveru tveggja lykilmanna vel en einbeitningarleysi í tveimur fyrirgjöfum KR-inga varð þeim dýrkeypt.
Heimamenn áttu fyrsta marktækifærið þegar Björgólfur Takefusa tók aukaspyrnu á hægri kantinum sem sveif rétt fram hjá Keflavíkurmarkinu. Keflvíkingar vöknuðu strax eftir aukaspyrnuna og héldu boltanum vel og á 11. mínútu komust gestirnir í 1-0. Magnús Þorsteinsson sendi þá langan bolta upp eftir vellinum á Guðmund sem brunaði fram með varnarmann í sér og skaut að marki. Boltinn hafnaði í hægra horninu en Kristján var ekki fjarri því að koma höndum í boltann. KR 0-1 Keflavík.
Eftir markið var allur vindur úr heimamönnum og Keflvíkingar áttu hverja sóknina á fætur annarri. Á 20. mínútu átti Magnús Þorsteinsson skot frá vinstri kanti sem Kristján varði í stöng en Magnús átti góðan leik fyrir Keflavík í kvöld og nýtti vel tækifærið í fjarveru Baldurs og Guðmundar.
Heimamenn í vesturbænum jöfnuðu metin á 27. mínútu þegar Grétar Hjartarson skallaði knöttinn í netið. KR-ingar sendu boltann fyrir markið og varnarmenn Keflavíkur gleymdu sér eitt augnablik og það var nóg fyrir Grétar. Ómar Jóhannsson, markvörður Keflavíkur, kom höndum í boltann en náði ekki að bægja honum frá. KR 1-0 Keflavík.
KR-ingar voru ívið sterkara liðið undir lok fyrri hálfleiks en óhætt er að segja að fyrri hálfleikur hafi að mestu verið í eigu Keflvíkinga.
Heimamenn voru enn sterkari þegar síðari hálfleikur hófst og Gunnlaugur Jónsson gerði mark fyrir KR á 50. mínútu en var dæmdur brotlegur í teignum.
Á 57. mínútu leiksins gerðist umdeild atvik þegar Magnús Þorsteinsson lék varnarmann KR upp úr skónum og átti einungis eftir að takast á við Kristján Finnbogason í marki KR þegar hann var felldur í teignum. Garðar Örn Hinriksson, dómari, gaf Magnúsi gult spjald fyrir leikaraskap og að reyna að fiska vítaspyrnu en það þótti nokkuð augljóst að brotið hafði verið á Magnúsi.
Um níu mínútum eftir að Magnús hafði fengið gult spjald kom Björgólfur Takefusa sínum mönnum í 2-1 eftir fyrirgjöf frá Sigmundi Kristjánssyni. Önnur fyrirgjöf og annað skallamark þar sem Keflvíkingar sofnuðu á verðinum í vörninni. KR 2-1 Keflavík.
Leikar voru nokkuð jafnir eftir mark KR-inga en á 79. mínútu áttu Keflvíkingar aukaspyrnu við vinstra vítateigshorn KR. Þórarinn Kristjánsson, sem kom inn á sem varamaður fyrir Stefán Örn Arnarson tók spyrnuna og skrúfaði boltann í hornið vinstra megin. Kristján Finnbogason sá boltann seint og reyndi ekki að skutla sér á eftir honum. KR 2-2 Keflavík.
Þegar skammt var til leiksloka brunuð Keflvíkingar upp völlinn og voru þeir Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Kristjánsson komnir tveir í færi gegn Kristján í markinu. Þórarinn var með boltann og brotið var á honum. Hinn brotlegi varnarmaður KR fékk einungis að líta gult spjald fyrir brotið sem verðskuldaði rautt spjald þar sem Guðmundur og Þórarinn voru tveir á móti markmanni. Keflavík fékk aukaspyrnu fyrir brotið og náðu ekki að nýta sér hana og lokatölur því 2-2 og Keflvíkingar eru komnir í 2. sætið í Landsbankadeildinni með 19 stig, 10 stigum á eftir toppliði FH.
,,Úr því við lentum undir þá var ánægjulegt að koma til baka og ná stigi,” sagði Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflvíkinga, í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. ,,Við lögðum upp með að ná í þrjú stig en einbeitningarleysi hjá okkur í augnablik skilaði tveimur KR mörkum og okkur var refsað grimmilega,” sagði Guðmundur. Næsti leikur Keflvíkinga er gegn FH á Keflavíkurvelli sunnudaginn 20. ágúst.