Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Einstakt met Elvu Lísu verður líklega seint bætt
Laugardagur 11. maí 2013 kl. 14:23

Einstakt met Elvu Lísu verður líklega seint bætt

- Bætti fyrra Íslandsmet um fjórar og hálfa mínútu

Elva Lísa Sveinsdóttir úr Njarðvíkurskóla vakti landsathygli þegar hún bætti Íslandsmetið í hreystigreip í riðlakeppni Skólahreysti fyrir skömmu. Að meðaltali eru keppendur að tolla um 2:35 mínútur á slánni og var fyrrum Íslandsmet 6:28 mínútur. Margir héldu að það met yrði seint slegið en Elva Lísa var á öðru máli. Hún gerði sér lítið fyrir og náði tímanum 11:08 mínútur og bætti því fyrra met verulega. Elva notaðist við tækni sem vakti nokkra athygli en hún lét annan handlegg síga niður öðru hverju og hékk því á annari hendi. Það gerði hún til þess að halda blóðflæðinu gangandi.

Hreystigreipin snýst um það að hanga á slá í sem lengstan tíma en þrautin tekur jafn mikið á andlega og líkamlega þáttinn.  Elva æfði fimleika um árabil og segir hún að það hafi óneitanlega hjálpað henni að hafa sveiflað sér á tvíslánni í fimleikunum. Elva sem er 15 ára getur því miður ekki keppt í Skólahreysti að ári en hún fer í framhaldsskóla í haust. Elva hefur í kjölfarið á glæsilegur árangri fengið að heyra nokkra slappa brandara frá skólafélögunum. „Það er frekar pirrandi,“ segir hún og brosir. „Fólk talar um að það sé að hanga með mér og þannig bara“ segir  Elva en hún er ekki of mikið að kippa sér upp við létt grín af þessu tagi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Til þess að ná þessum árangri þurfti Elva að sjálfsögðu að æfa vel og þar naut hún m.a. aðstoðar Sandgerðingsins Freyju Sigurðardóttur sem er margfaldur Íslandsmeistari í fitness. Hjá Freyju æfði hún m.a. armbeygjur en Elva nær um 50 slíkum. „Það var hrikalega gaman að æfa með Freyju. Hún kenndi mér armbeygjur og peppaði mig upp,“ segir Njarðvíkingurinn. Í fyrra tók Elva einnig þátt í Skólahreysti en þá náði hún „einungis“ að hanga í rúmar fjórar mínútur. Það er því sannarlega mikil bæting á milli ára hjá henni.

Á meðan Elva hékk á slánni fyrir framan hudruðir áhorfenda og sjónvarpsmyndavélarnar fór margt í gegnum huga hennar. „Ég hugsaði bara með mér að ég ætlaði að taka eina mínútu í viðbót, bara eina mínútu í viðbót. Svo hugsaði ég bara um alla áhorfendurna,“ segir Elva sem hlustaði á tónlist á meðan hún vann þennan mikla sigur. En hvað var í ipodinum? „Ég var bara að hlusta á uppáhalds rapparann minn, Eminem,“ sagði methafinn að lokum.

Elva hékk í rúmar 11 mínútur í hreystigreip. Hún leikur einnig í treyju númer 11 í körfuboltanum.