Eins stigs sigur Grindvíkinga - nágrannaslagur í kvennakörfunni
Grindavík styrkti stöðu sína meðal fjögurra efstu í Subway-deild karla í körfubolta með sigri á Hetti í HS Orku höllinni í gær.
Þriggja stiga karfa frá Damier Pitts á lokasekúndunum tryggði eins stigs sigur. Heimamenn voru miklu betri og leiddu með fjórtán stig mun í hálfleik en Hattarmenn snéru blaðinu við í síðari hálfleik, náðu forystu undir lok leiks og voru nálægt því að fara með sigurinn heim þegar þeir fengu þristinn í andlitið. Lokatölur 87-86.
Grindavík -Höttur 87-86 (25-14, 19-16, 18-28, 25-28)
Grindavík : Gkay Gaios Skordilis 25/8 fráköst, Ólafur Ólafsson 18/7 fráköst/7 stoðsendingar, Damier Erik Pitts 16/7 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 9/4 fráköst, Valdas Vasylius 6, Zoran Vrkic 5/7 fráköst, Bragi Guðmundsson 4, Magnús Engill Valgeirsson 2, Nökkvi Már Nökkvason 2, Hilmir Kristjánsson 0, Arnór Tristan Helgason 0, Hinrik Guðbjartsson 0.
Höttur: Bryan Anton Alberts 27, Timothy Guers 14/8 fráköst, Obadiah Nelson Trotter 13, Gísli Þórarinn Hallsson 10, Adam Eiður Ásgeirsson 9, Nemanja Knezevic 8/5 fráköst, David Guardia Ramos 3, Matej Karlovic 2/5 fráköst, Sigmar Hákonarson 0, Juan Luis Navarro 0, Andri Björn Svansson 0, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 0.
Nágrannaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur verður í Ljónagryfjunni í kvöld, sunnudag kl. 19.15. Um er að ræða frestaðan leik frá því fyrr á tímabilinu. Keflavík er í efsta sæti Subway-deildarinnar og geta með sigri aukið forskotið í fjögur stig. Njarðvík er í 4. sæti og er með sex stiga forskot á Grindavík sem er í 5. sæti.