Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Einhverjir hafa kveinkað sér undan mér í gegnum tíðina
Kristinn er einn reyndasti dómari landsins og lætur leikmenn ekki komast upp með neitt múður. VF/JPK
Föstudagur 5. apríl 2024 kl. 08:39

Einhverjir hafa kveinkað sér undan mér í gegnum tíðina

Kristinn Óskarsson dæmdi sinn tvö þúsundasta leik í Njarðvík en þar dæmdi Keflvíkingurinn líka sinn fyrsta leik

„Minnistæðast af öllu er fólkið sem ég hef kynnst, bæði innan dómarahópsins og þátttakendur leiksins, gott fólk upp til hópa. Þá hefur mér þótt sérlega vænt um að kynnast öllum sjálfboðaliðunum allan hringinn í kringum landið. Frábært fólk og án þeirra gæti þetta ekki gengið,“ segir Kristinn Óskarsson, körfuknattleiksdómari, en Keflvíkingurinn dæmdi sinn tvö þúsundasta leik á vegum Körfuknattleikssambands Íslands í síðustu viku þegar UMFN og Haukar mættust í Subway-deild kvenna.

Kristinn er þriðji dómarinn í sögu KKÍ sem nær þessum áfanga en Rögnvaldur Hreiðarsson var fyrstur til að ná 2.000 leikjum og Sigmundur Már Herbertsson annar. Meðdómarar Kristins í leiknum voru þeir Jón Þór Eyþórsson og Bjarni Rúnar Lárusson en þegar Bjarni fæddist hafði Kristinn dæmt í tvö og hálft ár.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kristinn dæmdi sinn fyrsta leik þann 22. nóvember 1987, einmitt í Njarðvík í efstu deild kvenna en þá var lið Grindavíkur í heimsókn. Meðdómari Kristins var Jón Guðbrandsson. Lokatölur leiksins urðu 29:22 en eftir fyrsta leikhluta í Njarðvík í síðustu viku var staðan 29:17.

Það var ekki hægt að sleppa Kidda öðruvísi en að hann rifjaði upp eftirminnileg atvik og það stóð ekki á svari hjá kappanum.

„Ferillinn spannar núna 37 ár fyrir KKÍ. Ég hef verið gæfusamur og notið þess heiðurs að fá að dæma marga mikilvæga leiki. Einhver atvik úr leikjunum eru minnisstæð, eins og þegar Ermolinskij kyssti boltann í Borgarnesi, þegar fjórir Grindvíkingar mættu í leik á Ísafirði, fjórframlengdur leikur í Borgarnesi, fimmti leikur KR og UMFG 2009 og fimmti leikur Vals og Tindastóls 2023. Einvígi Vals og KR 2021 var erfiðasta sería sem ég hef dæmt.“

Það er freistandi að spyrja um hvaða leikmenn hafi röflað mest?

„Ég er þekktur innan hreyfingarinnar fyrir að halda uppi aga og reglu og hef margoft þurft að beita mér af hörku. Einhverjir hafa kveinkað sér undan mér í gegnum tíðina. Því finnst mér ávallt svo ánægjulegt að hitta leikmenn og þjálfara löngu síðar sem koma til mín brosandi og taka spjallið á góðu nótunum. Það sýnir þroska og skilning á hlutverki dómarans í leiknum. Fyrir það þakka ég.“

En hvað ætlar þú að halda lengi áfram?

„Ég er þakklátur að hafa heilsu til að taka þátt og ég legg mig enn fram að reyna að vera betri í dag en í gær. Á meðan að svo er þá held ég áfram – en verandi kominn á minn aldur þá getur hver leikur verið sá síðasti svo ég reyni að njóta stundarinnar.“