Einar Einarsson: „Lykilatriði að klára heimaleikina“
Á mánudaginn jöfnuðu Snæfellingar úrslitaeinvígið gegn Keflavík með sigri í Stykkishólmi 97-93 í vafasömum leik, þar sem meðal annars gleymdist að skrá körfu á Keflavíkurliðið. Þriðji leikur liðanna er í kvöld klukkan 19:00 í Keflavík í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Víkurfréttir spjölluðu við Einar Einarsson, þjálfara Grindvíkinga um úrslitaeinvígið hingað til og báðum hann að meta leikinn í kvöld og framhaldið í rimmunni.
„Fyrstu leikirnir fóru eiginlega eins og ég hafði gert ráð fyrir. Ég bjóst alveg við því að Keflvíkingar myndu taka fyrsta leikinn frekar þægilega á öflugum heimavelli. Það kom mér svo ekkert rosalega á óvart að Keflvíkingar töpuðu í Hólminum, bæði það að Snæfell er með mikið sjálfstraust á heimavelli og Keflavík ekki með fullt hús af fólki með sér. Körfunnar vegna vonast ég til að leikirnir verði fimm en það er eitthvað sem segir mér að Keflavík klári þá jafnvel í fjórum. Lykilatriði fyrir Keflavík er að klára heimaleikina sína, það segir sig sjálft. Snæfellingar verða að fara að stela leik á útivelli, en ég sé ekki fram á það miðað við hvernig þeir hafa spilað í Keflavík undanfarið, þeir hafa aldrei gert sig líklega til að vinna í Keflavík. Keflvíkingar eru væntanlega ekki sáttir við úrslitin á mánudag og framvinduna í þeim leik, mistök hjá ritara og villan undir lokin, þannig að ég trúi því að Keflvíkingarnir komi grimmir til leiks í kvöld og hristi þá af sér strax eftir þrjá leikhluta. Annað hvort þurfa Snæfellingar að mæta undirbúnir eða verða skyldir eftir í rykinu. Um leið og Keflavík er komið á flug skilja þeir andstæðingana eftir og þá er ekkert aftur snúið. Keflvíkingar eiga ekki eftir að fara í þægilega ferð svo á Hólminn á laugardag, það situr í mönnum svona langt ferðalag og Keflvíkingum hefur ekkert gengið alltof vel í Hólminum undanfarið. Keflavík er með sterkari liðsheild heldur en Snæfell og eins og Keflavík hefur spilað í úrslitakeppninni þá hafa þeir fengið einn tapleik og svo eru þeir komnir í gírinn aftur, eins og á móti ÍR-ingum, þeir þurftu eitt kjaftshögg til að átta sig á hlutunum og nú eru þeir búnir að fá sitt kjaftshögg gegn Snæfellingunum og spurningin er hvort það sé nóg fyrir þá, ef ekki þá er náttúrulega allt opið. Ég spái því að Keflavík taki heimaleikina og þá er spurning hvernig Snæfellingar bregðist við að vera 2-1 undir á laugardaginn. Ef Keflavík vinnur í kvöld er pressan of mikil á Snæfellingum að mínu mati, hins vegar eru þeir ekki nýliðar í úrslitakeppninni og hafa sýnt að þeir geta alveg komið tilbaka ef því er að skipta. Það er virkilega erfitt að spá um þetta en Keflvíkingarnir eru það þéttir að það er hægara sagt en gert að slá þá út, liðið er búið að spila saman síðustu ár og eru það samstíga, þeir hafa það framfyrir önnur lið. Fyrir körfuna vona ég að leikirnir verði fimm en sem gamall Keflvíkingur vona ég að Keflavík vinni í fjórum leikjum.“
Vf-mynd/Þorgils - Magnús Gunnarsson, úr fyrsta leik liðanna í Sláturhúsinu