Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Einar Árni: Bryndís er með reynslu í stóru leikjunum
Laugardagur 16. febrúar 2013 kl. 06:00

Einar Árni: Bryndís er með reynslu í stóru leikjunum

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga telur Keflavíkurstúlku sigurstranglegri í bikarúrslitum sem fara fram í Laugardalshöll í dag. Hann segir líklegt að spennan verði allsráðandi í karlaleiknum og þar verði jafnvel boðið upp á körfu á lokasekúndum sem ræður úrslitum.

„Ég spái því að Keflavík vinni kvennaleikinn. Reynslan og sigurhefðin er til staðar í þeirra herbúðum.  Karlaleikurinn er risa spurningamerki. Grindavík hefur verið að spila mjög vel undanfarið meðan Stjarnan hefur tapað síðustu fjórum deildarleikjum. Stjarnan með sinn leikmannahóp er í sérstakri stöðu að vera eitthvað „underdog“ lið. Það er spurning hvort að Teitur nái ekki að nýta það sem vopn í baráttunni.  Ég tippa á jafnan leik og við fáum sigurkörfu á síðustu sekúndunum, en hvorum megin sigurinn lendir er ég ekki svo viss um þó það væri eðlilegast að skjóta á Grindavík með gengi liðanna undanfarið til hliðsjónar.“

Hvað mun ráða úrslitum í þessum leikjum?
„Ég held að Keflavík taki kvennaleikinn meðan þeir missa ekki Jaleesu Butler í einhvern stórleik, þær eru einfaldlega með betri hóp að mínu mati. Karlamegin sé ég fyrir mér að varnarleikurinn ráði úrslitum. Bæði lið hafa innan sinna raða marga góða sóknarmenn og eru bæði sterk sóknarlega almennt svo það lið sem mætir með beittari varnarleik vinnur. Ef ég ætti að taka út leikmenn þá er þetta spurning hvort að það verði Justin Shouse eða Sammy Zeglinski sem eigi betri leik. Þeir eru gríðarlega mikilvægir leikmenn fyrir sín lið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sérðu fyrir þér einhverja sem munu leika sérstaklega vel í leikjunum?
„Ég held að Keflavík geti fengið aukið framlag frá leikmanni eins og Bryndísi Guðmunds sem hefur reynslu úr þessum stóru leikjum. Erlendu leikmennirnir verða framarlega í stigaskori báðum megin, og svo eru Pálína og Kristrún líklegar í stórleiki. Karlamegin eru þetta Shouse, Fryer og Mills hjá Stjörnunni og Broussard og Zeglinski hjá Grindavík sem ég sé leiða stigaskorið.“

Hvar liggur munurinn hjá liðunum?  

„Keflavíkurstelpur hafa fleiri öfluga leikmenn og mikla sigurhefð. Valur hefur á móti ekki verið í bikarúrslitum áður þó stöku leikmenn þar þekki leikinn stóra í Höllinni.  Munurinn á liðunum í karlaboltanum er ekki mikill. Munurinn núna liggur í uppsveiflu Grindvíkinga en niðursveiflu Garðbæinga, en það telur svo bara ekkert á laugardaginn í einstökum leik,“ segir Einar að lokum.