Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ein besta æfingaaðstaða landsins
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 9. október 2021 kl. 07:30

Ein besta æfingaaðstaða landsins

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fær inni í gömlu slökkvistöðinni

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar (BR) hefur fengið til afnota hluta gömlu slökkvistöðvarinnar í Reykjanesbæ. Með nýrri æfingaaðstöðu opnast sóknarfæri fyrir borðtennisíþróttina í Reykjanesbæ og félagar í BR eru stórhuga, hafa ráðið þjálfara og æfingar eru þegar hafnar. BR keppir nú í fyrsta sinn í deildarkeppni Borðtennissambands Íslands (BTÍ) og sendir tvö lið til leiks.

Keppendur BR í 3. deild. Frá vinstri Jón Gunnarsson, Damian Kossakowski, Mateusz Marcykiewicz, Michał May-Majewski, Piotr Bryś, Piotr Herman og á borðinu er lukkudýrið „Pig Halinka“.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keppni hófst um síðustu helgi og í fyrstu umferð mættust A- og B-lið Borðtennisfélags Reykjanesbæjar þar sem B-liðið hafði betur. BR er ungt félag en það hóf æfingar í byrjun árs í kaþólsku kirkjunni á Ásbrú. Piotr Herman, fyrsti formaður félagsins, sagði í viðtali við Víkurfréttir að kórónuveirufaraldurinn hafi í raun ýtt félaginu úr vör. „Við vorum nokkrir sem unnum á sömu vakt hjá Icelandair og þar höfðum við aðgang að borðtennisborði sem við notuðum í hvíldartíma á vöktum. Okkur fjölgaði sem lögðum stund á borðtennis og því útbjuggum við nokkurs konar mót okkar á milli. Síðan þegar veirufaraldurinn skall á misstum við vinnuna og þá þurftum við að finna okkur eitthvað að gera. Við byrjuðum auðvitað á að reyna að fá vinnu en það var vonlaust. Svo fréttum við að borðtennisborð væri í kaþólsku kirkjunni á Ásbrú og presturinn þar tæki vel á móti öllum. Hann tók vel í bón okkar þegar við spurðum hvort við mættum spila borðtennis í kirkjunni og það varð úr að við fengum að nota borðið og æfa okkur þar,“ segir Piotr.

„Svo byrjaði ungur klerkur í kirkjunni og hann fór að spila með okkur. Klerkurinn hafði verið í borðtennisfélagi í Póllandi og hann stakk upp á að við héldum mót í kirkjunni. Það tókst mjög vel til og við héldum annað mót – og þá tóku enn fleiri þátt. Þannig óx þetta og kjarni myndaðist sem fór að æfa tvisvar, þrisvar í viku. Við fundum æfingar á YouTube og þetta hjálpaði okkur mikið á meðan vorum atvinnulausir.

Okkur fannst þetta ganga vel en við vildum bæta okkur sem borðtenniskeppendur, svo við fórum á stúfana en fundum enga aðstöðu til æfinga, allir tímar í íþróttahúsum voru uppteknir. Ég var kynntur fyrir Jóhanni Kristjánssyni hjá VSFK sem er borðtennisspilari og hann setti mig í sambandi við HK í Kópavogi sem tók okkur eiginlega undir sinn verndarvæng. Þar kynntist ég Bjarna Þorgeiri Bjarnasyni, borðtennisþjálfara, sem hefur nú tekið að sér þjálfun hjá okkur samhliða HK.“

Borðtennis spilað í kaþólsku kirkjunni á Ásbrú.


Þeim fjölgaði sem tóku þátt.

Hefur gengið hratt fyrir sig

Stofnfundur Borðtennisfélags Reykjanesbæjar (BR) var haldinn 31. mars en vegna Covid-19 mættu aðeins sjö stofnfélagar á fundinn ásamt tveimur gestum frá Borðtennissambandi Íslands. Eitt af markmiðum félagsins er að halda uppi öflugu barna- og unglingastarfi ásamt æfingum fullorðinna.

„Mér finnst ótrúlegt að þetta skuli hafa gengið svona vel á jafn skömmum tíma og raun ber vitni,“ segir Piotr um aðstöðuna og uppganginn í félaginu. „Þetta hefur gengið eftir með einbeittum vilja, auðvitað hefur gengið á ýmsu en við gáfumst aldrei upp. Skiljanlega hefur fólk tekið misvel í erindi okkar, það er mikið að gera hjá fólki og það kemst ekki yfir allt sem það þarf að gera, það gleymir hlutum og svo erum við sem skipum félagið flestir útlendingar. Samt sem áður hefur þetta tekist með aðstoð góðra manna hjá Reykjanesbæ, Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar og fleirum.

Aðstaðan sem við höfum núna til æfinga er ótrúlega fín, við höfum verið samheldinn hópur félaga sem höfum gert salinn kláran í sjálfboðavinnu og það tókst, við náðum að skrúfa síðustu skrúfuna rétt fyrir opnunina,“ segir Piotr og hlær.

Við formlega opnun æfingasalarins í síðustu viku var m.a. Örn Þórðarson, formaður BTÍ, sem hafði á orði að æfingaaðstaða BR væri ein sú besta á landinu þar sem væru standandi borð [þar sem borðin eru uppsett og tilbúin til notkunar].

Á næstunni mun stjórn BR kynna fyrirkomulag æfinga og hvenær salurinn er laus fyrir leikmenn sem eru styttra komnir í íþróttinni, bæði börn og fullorðna.


Svipmyndir frá framkvæmdum við breytingar á sal Borðtennisfélags Reykjanesbæjar: