Egill með lausan samning
Körfuknattleiksmaðurinn Egill Jónasson hefur enn ekki ákveðið hvar hann spilar næsta vetur en vonast til að framtíð hans fari að skýrast í þessari viku. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu og á www.visir.is í dag.
Egill hefur stefnt að því að komast í atvinnumennsku næsta vetur og veit af áhuga danskra, sænskra og kýpverskra liða en umboðsmaður hans er enn að vinna í hans málum.
Egill segist bíða eftir að meta væntanleg tilboð frá erlendum liðum en fari svo að hann verði áfram á Íslandi þá er ekkert öruggt að hann verði áfram í Njarðvík. „Ég er ekki enn búinn að semja við Njarðvík þannig að ég er samningslaus," segir Egill en mestar líkurnar eru þó á því að hann spili utan landssteinanna næsta vetur.
VF-mynd/ Úr safni - Egill í leik gegn Keflavík