Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eggið kennir hænunni
Laugardagur 30. nóvember 2013 kl. 12:00

Eggið kennir hænunni

- Feðgarnir Sveinn Björnsson og Kristinn Rafn Sveinsson hófu nýlega feril sem körfuboltadómarar.

„Ég sá námskeið auglýst á heimasíðu KKÍ í mars sl. og spurði strákinn hvort hann vildi fara á dómaranámskeið. Hann var til að fara ef ég færi með honum. Ég sló til og féll algjörlega fyrir dómgæslunni,“ segir Sveinn en hann og Kristinn Rafn sonur hans hófu nýverið feril sem dómarar í körfubolta. Kristinn æfir körfu hjá Keflavík með 11. flokki en sjálfur var Sveinn aldrei mikið í körfubolta á sínum yngri árum. Sveinn starfar í barna- og unglingaráði körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og fjölskyldan fylgist vel með körfuboltanum. „Við hjónin höfum bara fylgt okkar börnum í kringum allar þær íþróttir sem þau velja. Kristinn valdi körfuboltann, hin tvö eru í fimleikum og sjálf erum við hjónin í blaki. Þannig að það er nóg að gera á þessu heimili,“ segir Sveinn hress í bragði.

Feðgarnir hafa dæmt töluvert saman en Sveinn segir að dómgæslan sé ennþá bara áhugamál hjá sér. „Ég dæmi kannski 6-7 leiki í mánuði, síðan höfum við verið að taka leiki fyrir okkar félag þegar fjölliðamót eru um helgar.“ Kristinn er aðeins 16 ára en mælst er til þess að menn séu a.m.k. 17-18 ára í dómgæslunni. Hann kann þó sitt hvað fyrir sér og er óhræddur við að kenna pabba sínum reglurnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við getum sagt að eggið hafi stundum verið að kenna hænunni. Meðan á námskeiðinu stóð ræddum við alla mögulega hluti sem gætu komið upp, svo tókum við oft sýnikennslu fyrir hvorn annan,“ segir Sveinn en hann viðurkennir að hafa verið mjög góður svokallaður „stúkudómari“ áður en hann sótti námskeiðið. Hann átti alls ekki von á því að enda nokkur tímann i dómgæslu í körfuboltanum, hvað þá með syni sínum.

„Við tökum bara eitt skref í einu, en stefna er klárlega tekin lengra. Ég tel líklegt að Kristinn komi til með að dæma mikið í framtíðinni og leyfi kallinum kannski að taka einn og einn leik með sér.“