Ég hangi dálítið í sníkjunni
Valur Þór Hákonarson er tvítugur framherji og hefur átt sterka innkomu í knattspyrnulið Keflavíkur í síðustu leikjum liðsins en þessi baráttuglaði framherji smitar leikgleðinni til liðsfélaga sinna og svo hefur hann líka verið að skora mörk. Valur skoraði mikilvægt mark gegn úrvalsdeildarliði ÍA í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar og var aftur á ferðinni í fyrsta deildarsigri Keflavíkur í sumar. Víkurfréttir heyrði í þessum skemmtilega leikmanni til að fá að vita meira um hann.
Fimmtíu prósent Skagamaður – hundrað prósent Keflvíkingur
Þú sagðir mér að þú værir Skagamaður.
„Já, ég er að hluta til Skagamaður. Það er að segja öll mömmu ætt er af Skaganum en pabbi er héðan. Þau vilja meina að ég sé fimmtíu prósent Skagamaður en ég myndi segja að ég væri hundrað prósent Keflvíkingur,“ segir Valur sem hefur leikið með Keflavík í gegnum alla yngri flokka félagsins.
„Ég á fullt af ættingjum uppi á Skaga en hef sjálfur aldrei verið þar – það er fullt af geggjuðu fólki frá Skaganum. Svo er alltaf gaman að spila á móti Skaganum – líka alltaf gaman að skora á móti þeim.“
Já, þú áttir heldur betur góða innkomu þegar þið slóguð ÍA út í bikarnum. Skoraðir líka markið sem gulltryggði sigurinn á góðum tímapunkti.
„Já, þetta var mjög mikilvægt mark til að klára leikinn. Þeir voru farnir að pressa svolítið á okkur og svo fékk einn okkar rauða spjaldið skömmu síðar, það hefði verið mjög erfitt að eiga við þá manni færri.“
Valur segir að hann hafi byrjað mjög ungur í fótbolta; „en svo var ég líka í handbolta með HKR þegar það var. Þá var ég bara í sjötta bekk en fínn í handbolta og mér finnst mjög gaman að spila hann en síðan er bara fótboltinn númer eitt. Ég reyndi líka aðeins fyrir mér í körfubolta – gat aldrei neitt.“
Valur hefur komið sterkur inn í lið Keflavíkur á þessu tímabili og vakið athygli fyrir fítonskraft og að gefa sig allan í leikinn þegar hann hefur fengið tækifæri – og það virkar eins og vítamínssprauta á liðsfélagana.
Það er svolítið skrítið hvernig þetta tímabil hefur byrjað hjá ykkur, brillerið alveg í bikarnum en svo hefur ekkert gengið í deildinni fyrr en í gær [viðtalið var tekið eftir 3:0 sigur Keflvíkinga á Aftureldingu en þeir gerðu svo jafntefli við Þór á Akureyri um síðustu helgi].
„Þetta er ógeðslega skrítið. Við erum búnir að tapa fyrstu tveimur leikjunum í Lengjudeildinni en slá tvö Bestu deildarlið í bikarnum. Við erum einhvern veginn búnir að mæta miklu grimmari í þessa bikarleiki og við gerðum það líka á móti Aftureldingu.“
Þó að þetta hafi verið tvö neðstu liðin var þetta hálfgerður toppslagur, það var búið að spá því að bæði þessi lið yrðu í toppbaráttunni í sumar.
„Það má eiginlega segja það. Fyrir þennan leik var Afturelding með eitt stig og við núll. Þetta var eiginlega bara botnslagur og bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda. Mér fannst við hafa ágætis tök á leiknum og svo var það ágætt þegar þeir misstu mann út af með rautt spjald og við fengum víti. Við fengum samt fín færi þarna rétt á undan og vorum óheppnir að vera ekki komnir yfir.“
Svo kemur þú bara sjóðheitur inn, bæði í bikar- og deildarsigrinum. Mér fannst þín innkoma hressa svolítið upp á liðið.
„Þegar maður kemur inn með svona krafti, svona baráttu, þá held ég að það kveiki svolítið upp í mönnunum í kringum mig. Maður er hlaupandi og öskrandi – það hlýtur að hjálpa til og vera hvetjandi.“
Hefurðu alltaf verið svona?
„Já, ég hef alltaf verið svona. Var líka svona þegar ég var í yngri flokkunum, mér finnst bara ógeðslega gaman að vera í harkinu – læt mig vaða í alla skallabolta og svoleiðis.
Ég er með ADHD-greiningu og það hjálpar bara til ef eitthvað er. Það eru bara meistarar sem eru með ADHD,“ segir baráttuhundurinn Valur.
Þannig að þú ætlar að láta til þín taka í sumar?
„Já og vonandi nær maður að pota nokkrum til viðbótar inn og halda áfram að vinna. Það er það eina sem ég bið um.“
Halda áfram að vinna og jafnvel festa þig í byrjunarliði.
„Já, það væri líka skemmtilegt en ég treysti líka á hvernig þeir [þjálfararnir] stilla liðinu upp – og á meðan ég er að koma svona inn í leiki þá er það bara fínt.“
Það er svo ógeðslega gaman í fótbolta
Þú valdir fótboltann og hefur fundið þig þar. Hvað ætlarðu að gera úr þessum fótboltaferli, hvert stefnirðu?
„Bara ná eins langt og ég get. Halda áfram að vinna í mínu og byrja á að tryggja mér fast sæti í byrjunarliðinu, það er best að taka eitt skref í einu.“
Hefur þú alltaf hangið í sníkjunni?
„Sníkjunni? Hvernig þá?,“ spyr Valur og blaðamaður útskýrir að það sé kallað að vera í sníkjunni þegar menn hanga frammi og nenna helst ekki til baka.
Valur hlær að þessu og segir hreinskilningslega: „Já, ég hangi dálítið í sníkjunni. Ég hef alltaf viljað vera í sókninni og aldrei nennt að spila vörn, því miður. Tvíburabróðir minn [Aron Örn Hákonarson] sér um þau mál fyrir okkur bræðurna, hann er vinstri bakvörður.“
Áttu þér einhverja fyrirmynd í boltanum?
„Það er Zlatan [Ibrahimovich]. Það kemst enginn nálægt honum,“ segir Valur og þegar hann segir það kemur það manni ekkert á óvart en Valur virðist hafa gott sjálfstraust og það er eitthvað Zlatan-legt við hann.
Hvað gerir þú svona fyrir utan fótboltann?
„Heyrðu, ég er að vinna í Njarðvíkurskóla. Er að sinna krökkunum þar – og það er eiginlega það eina sem ég geri fyrir utan fótboltann.
Ég er að mjaka mér áfram með Fjölbraut, ég hætti á öðru ári því ég er mjög óviss um hvað ég ætla að gera í framtíðinni. Ég fer að klára þetta bráðum og henda mér í háskóla – hef reyndar enga glóru hvað ég ætla að læra. Ég er bara tvítugur, einhleypur og vitlaus,“ segir hann og bætir við að fótboltinn sé eina áhugamálið hans. „Mér finnst samt alveg gaman í tölvuleikjum. Ég myndi ekki segja að ég væri helsjúkur spilari en stundum á ég það til að spila svolítið mikið. Þá er ég að spila fótboltaleik, FIFA, þannig að þetta tengist allt við fótboltann. Það er svo ógeðslega gaman í fótbolta,“ sagði Valur að lokum og það verður gaman að sjá hvort honum takist ekki að setja nokkur í sumar.