Eftirtektarverður árangur hnefaleikakappa
HFR sigursælir um helgina
Keppendur frá Hnefaleikafélagi Reykjaness (HFR) voru sigursælir á ólympísku hnefaleikamóti sem fram fór í Reykjavík hjá hnefaleikafélaginu ÆSIR um helgina.
Hnefaleikafélag Reykjanes var þar með tvo keppendur þá Þorstein Róbertsson og Magnús Marcin. Magnús keppti í léttþungavigt (-81kg) og steig upp í hringinn á móti kappa frá HFÆ. Viðureignin var heldur betur spennandi en keppendur skiptust á þungum höggum en það var Magnús sem að hafði sigurinn að leikslokum. Þetta er í annað skiptið sem Magnús stígur inn í hringinn, en hann hafði einnig sigur á boxkvöldi í Keflavík í Apríl 2015.
Marcin, Egill, Þorsteinn, Björn og Björn Lúkas.
Bardagi Þorsteins Róbertssonar, einnig úr HFR, var hans fyrsti keppnisbardagi. Sjaldan hefur sést betri frumraun. Þorsteinn fór á móti keppanda HR-Mjölni í veltivigtarflokki (-69kg) og byrjaði viðureignin með látum. Fjöldi högga setti af stað bardagann og hélt út þrátt fyrir ofsaþreytu beggja. Þorsteinn gaf þó ekkert eftir, stjórnaði viðureigninni frá byrjun og tók heim gullið. Einnig fékk hann mikið lof frá áhorfendum fyrir þrautseigju sína. Þess má geta að Þorsteinn hefur einungis æft í tæpa sex mánuði.
Á Sunnudeginum síðasta hélt HFR diploma mót ásamt Hnefaleikafélagi Akraness. Þar voru 10 ungmenni frá HFR á aldrinum 13-16 ára sem tóku þátt. Margir hverjir voru að stíga inn í hringinn í fyrsta skipti. Náðist stórkostlegur árangur hjá liðinu í Reykjanesbæ. Eftirtektarverður var árangurinn hjá Benóný Færseth Guðjónssyni (13), sonur Guðjóns Vilhelms sem kom af stað boxinu í Reykjanesbæ, en Benóný hlaut sína fyrstu diploma gráðu fyrir færni sína á móti andstæðing í keppninni. Drengurinn er búinn að æfa hnefaleika af kappi síðastliðin ár og ætlar sér stóra hluti.