Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eftirminnilegustu atvik ársins í íþróttunum
Laugardagur 9. janúar 2016 kl. 07:01

Eftirminnilegustu atvik ársins í íþróttunum

Íþróttafárið 2015 á Suðurnesjum - myndir

Hér er stiklað á stóru á léttu nótunum um það eftirminnilegasta sem gerðist á árinu 2015 í íþróttum á Suðurnesjum. Auðvitað er mjög margt jákvætt sem gerðist á árinu og fjölmargt íþróttafólk sem afrekaði gríðarlega mikið sem ekki verður talið upp hér. Árið var heilt yfir ekkert sérstakt hjá þessum stærstu greinum. Fótboltinn hefur ekki átt eins slæmt ár í lengri tíma og körfuboltafólk hefur oft verið meira áberandi og skilað fleiri titlum. Áfram eru það bardagaíþróttir og greinar sem ekki teljast til boltagreina sem eru að halda heiðri svæðisins á lofti. Yngri iðkendur eru í fínum málum og sigurganga Suðurnesja í Skólahreysti heldur áfram.


Þrenna ársins

Ástrós Brynjarsdóttir var kjörinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar þriðja árið í röð. Ástrós vann fimm Íslandsmeistaratitla á árinu, hún vann til tíu gullverðlauna, tveggja silfur verðlauna og þriggja bronsverðlauna. Ástrós hefur sýnt það ítrekað að hún er með betri íþróttamönnum í heimi í hinni erfiðu og fjölmennu íþróttagrein taewkondo.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Vonbrigði ársins

Keflvíkingar unnu aðeins tvo leiki í Pepsi-deild karla í fótboltanum sumar og settu í leiðinni tvö vafasöm met. Liðið fékk aðeins 10 stig í 22 leikjum, sem er met í 12 liða efstu deild. Liðið var með 39 mörk í mínus, 22 skoruð og 61 fengin á sig, sem er met í 12 liða efstu deild.
Árangurinn var enn verri í kvennaboltanum en þar náðu Keflvíkingar aðeins í eitt stig í sumar og höfnuðu í neðsta sæti 1. deildar.


Styrkur ársins

Njarðvíkingurinn Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir kom sá og sigraði, næstum því, árið 2015. Sara varð Evrópumeistari í Crossfit í sumar og tryggði sér þar með þátttökurétt á heimsleikunum í Los Angeles. Þar kom hún flestum á óvart og leiddi keppnina þegar lokadagurinn hófst. Nýliðinn náði hins vegar ekki að halda út og varð að gera sér þriðja sætið að góðu, sem er ótrúlegur árangur engu að síður hjá þessari öflugu íþróttakonu.


Bikar ársins

Grindvíkingar urðu bikarmeistarar kvenna í körfubolta snemma árs með því að sigra granna sína frá Keflavík. Sigurður Ingimundar spilaði hugaleikfimi og sagði Carmen Tyson-Thomas ekki geta leikið með í úrslitunum. Hún kom svo í Höllina öllum að óvörum, eldhress og í góðu skapi. Óhætt er að segja að hún hafi ekki hjálpað Keflvíkingum í leiknum sem vissu ekki að hún yrði með fyrr en á síðustu stundu.


Skipting ársins

Kristján Guðmundsson var látinn taka poka sinn hjá Keflavík og heimahetjurnar Haukur Ingi og Jóhann Birnir tóku við. Kristján náði í eitt stig í sex leikjum en þeir Jói og Haukur náðu í níu í 16 leikjum. Nú er Þorvaldur Örlygsson kominn í brúna og geta blaðamenn Víkurfrétta hreinlega ekki beðið eftir því að taka viðtöl við kappann næsta sumar.

Endurkoma ársins
Hjörtur Harðar gafst upp á körfuboltanum og fór yfir í blakið. Þar er hann strax orðinn bestur eftir hálft tímabil.


Gíróseðill ársins

Oft er þörf en nú er nauðsyn, sögðu Keflvíkingar þegar þeir laumuðu gíróseðli inn á heimabanka bæjarbúa Reykjanesbæjar þegar fótboltaliðið var botnfrosið í Pepsi deildinni. Með þessum fjármunum átti sennilega að borga fyrir þá útlendinga sem komnir voru til þess að bjarga liðinu af botninum. Það tókst líka svona glimrandi vel.
„Það fer mikil vinna í það að ná í peninga til að reka svona deild. Við fengum góð viðbrögð fyrir gíróseðli sem sendur var til allra íbúa í Keflavík þó svo vissulega hafi það gerst á erfiðum tíma hjá liðinu í Pepsi-deildinni,“ sagði Nonni Ben formaður við VF í haust.


Heimkoma ársins
Stærstu félagsskiptin í fótboltanum komu eftir tímabilið en þá fengu Keflvíkingar Jónas Guðna Sævarsson aftur á heimaslóðir. Spurning hvort gíróseðillinn hafi hjálpað til þar?
Annar öflugur miðjumaður er einnig kominn á heimaslóðir en Gunnar Þorsteinsson er orðinn Grindvíkingur aftur eftir að hafa spilað í hinum heimabænum sínum, Vestmannaeyjum.


Atvinnumaður ársins

Arnór Ingvi Traustason varð sænskur meistari og lagði upp flest mörk í deildinni með liði sínu Norrköping. Hann vann sér inn sæti í landsliði Íslands og hefur hann verið orðaður við nokkur stór lið í Evrópu.


Móment ársins
Logi Gunnarsson Njarðvíkingur var eini fulltrúi Suðurnesjamanna á EM í körfubolta, sem er hálf grátlegt fyrir þetta mikla körfuboltasvæði. Hann lék afbragðs vel á mótinu og framkallaði eitt eftirminnilegasta augnablik í íslenskum körfubolta gegn Tyrkjum, þar sem hann tryggði liðinu framlengingu með rosalegum þristi á lokasekúndu leiksins. „Sjáðu skotið hjá Loga,“ sungu Íslendingar.


Vistaskipti ársins

Magnús Már Traustason fór leið sem fáir hafa fetað, þegar hann fór frá Njarðvík yfir í Keflavík í körfuboltanum. Hann fékk aðeins að heyra það frá nokkrum grænum sem voru sárir yfir því að missa einn sinn efnilegasta leikmann. Hann hefur svo leikið ljómandi vel með Keflvíkingum. Njarðvíkingar gátu huggað sig við það að Haukur Helgi Pálsson mætti ferskur frá Berlín í Ljónagryfjuna. Sannarlega stórhveli fyrir Njarðvíkinga. Tryggvi Guðmundsson gekk svo til liðs við Njarðvíkinga í fótboltanum og átti þátt í því að liðið hélt sæti sínu í 2. deild.


Lið ársins

Holtaskóli sigraði í Skólahreysti í fjórða sinn á síðustu fimm árum en grunnskólar úr Reykjanesbæ hafa sigrað síðustu sex árin, en Heiðarskóli hefur sigrað tvisvar. Magnaður árangur hjá þessum krökkum. Vonandi að einhverjir þessara krakka fari að skila sér í boltagreinarnar sem þurfa sárlega á titlum að halda.


Rimma ársins

Magga Stull og Bryndís Guðmundsdóttir háðu furðulega fjölmiðlarimmu á árinu. Önnur lét allt flakka og fór mikinn á meðan hin kaus að tjá sig ekkert um málið. Niðurstaðan varð sú að Bryndís leikur nú með Snæfellingum og Magga hætti með landsliðinu. Allir sáttir.


Meiðsli ársins

Gormurinn Stefan Bonneau kom víst eitthvað laskaður til æfinga hjá Njarðvíkingum úr sumarfríi. Hann sleit svo hásin eftir að hann steig inn í Ljónagryfjuna og hefur síðan verið einn öflugasti stuðningsmaður Njarðvíkur af bekknum.


Kúvending ársins

Njarðvíkingar afþökkuðu sæti í efstu deild kvenna í körfubolta. Í lok árs fengu þær svo öflugan erlendan leikmann (Carmen Tyson-Thomas) og formaðurinn sagði stefnuna setta á sæti í efstu deild!


Smölun ársins

Þorsteinn Magnússon var endurkjörinn formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur á aðalfundi deildarinnar en hann fékk mótframboð frá Baldri Þóri Guðmundssyni. Metþátttaka var á fundinum og mættu m.a. fjölmargir sem ekki hafs sést á Nettóvellinum um árabil. Sú stjórn steig svo til hliðar nokkru síðar alveg óvænt og veðhlaupahestarnir hans Nonna tóku við.