Dýrt tap hjá Njarðvíkingum í Garðabæ
Njarðvíkingar misstu af öðru sæti 2. deildar í knattspyrnu í gær þegar þeir töpuðu 3-2 gegn Stjörnunni í Garðabæ. Leikurinn var nokkuð jafn en sigurmarkið kom úr vítaspyrnu á 75. mínútu leiksins og Stjörnumenn því komnir í annað sætið. Njarðvíkingar eru þar með dottnir niður í fjórða sæti að níu umferðum loknum. Leikurinn var kostnaðarsamur fyrir Njarðvíkinga þar sem tveir leikmanna þeirra þurftu að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og einn fékk að líta rauða spjaldið.
Leikurinn tók rólega af stað en á 9. mínútu leiksins dró til tíðinda, þá átti Bjarki Eysteinsson skot á mark Njarðvíkinga sem Friðrik varði vel í markinu.
Heimamenn í Stjörnunni voru ívið sterkari í upphafi leiks en á 19. mínútu freistaði Michael Jónsson þess að skora fyrir Njarðvíkinga eftir góða sendingu frá fyrirliðanum Snorra Má Jónssyni. Skotið fór hinsvegar rétt yfir markið.
Á 23. mínútu leiksins kom svo fyrsta markið en það gerði Sigurður Brynleifsson fyrir Stjörnuna með því að vippa yfir Friðrik í markinu og staðan því 1-0. Eftir markið voru Stjörnumenn sterkari en Njarðvíkingar reyndu að klóra í bakkann og á 36. mínútu féll Michael Jónsson í teig Stjörnunnar. Dómari leiksins, Hans Kristján Scheving, lét ekki blekkjast og sýndi Michael gula spjaldið.
Staðan því 1-0 í hálfleik og Stjarnan sterkari aðilinn.
Heimamenn komu grimmari til seinni hálfleiksins og pressuðu þeir stíft á Njarðvíkinga. Gestirnir frá Njarðvík gerðu eina skiptingu í hálfleik og fór Jón Fannar Guðmundsson út af vegna meiðsla og inn kom Yomi Raiburn sem átti eftir að setja mark sitt á leikinn.
Stjörnumenn hertu róðurinn á 56. mínútu leiksins þegar Dragoslav Stojanovic sendi boltann á Valdimar Kristófersson sem skoraði með góðu skoti í bláhornið. Óverjandi fyrir Friðrik í markinu.
Aðeins tveimur mínútum síðar minnkaði Sverrir Þór Sverrisson muninn fyrir Njarðvíkinga þegar hann skoraði með utanfótarskoti eftir glæsilega stungusendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar frá Youmi Raiburn. Staðan því 2-1 og nokkuð að lifna yfir leikmönnum beggja liða.
Á 65. mínútu jöfnuðu Njarðvíkingar og þar var á ferðinni varamaðurinn Youmi Raiburn, hann vann boltann af varnarmönnum Stjörnunnar af miklu harðfylgi og vippaði svo yfir Atla Knútsson í markinu, 2-2, og þrjú mörk komin á aðeins níu mínútna kafla.
Næstu 10 mínúturnar skiptust liðin á að sækja en þá kom reiðarslagið, Sigurður Brynleifsson óð þá með boltann inn í vítateig Njarðvíkinga en var felldur af Gunnari Sveinssyni og réttilega dæmt víti. Gunnar fékk að líta gula spjaldið fyrir vikið en varð að yfirgefa leikvöllinn eftir samstuðið við Sigurð.
Vítið tók Dragoslav Stojanovic og setti hann boltann neðarlega í vinstra hornið, Friðrik valdi rétt horn en náði ekki til knattarins og staðan því 3-2.
Þetta reyndist nóg því Njarðvíkingar náðu ekki að svara þrátt fyrir að fimm mínútum hefði verið bætt við venjulega leiktíma. Michael Jónsson fékk sitt annað gula spjald á 92. mínútu fyrir það að slá til boltans þegar markvörður Stjörnunnar, Atli Knútsson, ætlaði að grípa hann. Dýr mistök hjá þessum unga leikmanni sem á fyrir vikið yfir höfði sér leikbann.
Njarðvíkingar eru því dottnir niður í fjórða sæti deildarinnar og leika næst gegn Leiftri/Dalvík á Ólafsfirði föstudaginn 15. júlí.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]