Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Dýrt tap Grindvíkinga- Tveir lykilmenn meiddir
Mánudagur 16. maí 2005 kl. 23:36

Dýrt tap Grindvíkinga- Tveir lykilmenn meiddir

Grindvíkingar töpuðu fyrir Valsmönnum í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar í dag, 3-1. Enn verri fréttir eru þær að tveiri lykilmenn liðsins verða frá í nokkurn tíma vegna meiðsla í leiknum.

Í fyrri hálfleik virtust Grindvíkingar ekki líklegir til að afsanna hrakspárnar og hleyptu Valsmönnum þremur mörkum framúr á stuttum tíma.

Sigurbjörn Hreiðarsson, fyrirliði Valsara, skoraði þeirra fyrsta mark úr víti á 13. mín eftir að brotið hafði verið á honum. Sigurbjörn setti boltann örugglega framhjá Boban Savic í marki Grindvíkinga.

Bjarni Ólafur Eiríksson var á ferðinni á 21. mín þegar hann gaf sendingu fyrir markið þar sem Guðmundur Benediktsson var réttur maður á réttum stað og renndi boltanum í netið.

Bjarni kórónaði svo frammistöðu sína á 34. mín með glæsilegu marki úr aukaspyrnu og var útlitið allt annað en gott fyrir gestina.

Lið Grindavíkur lék afleitlega í fyrri hálfleiknum þar sem sendingar gengu illa og mönnum hélst illa á boltanum.

Í seinni hálfleik var allt annað upplit á Grindvíkingum sem komu tvíefldir til leiks. Þeir voru mun skeinuhættari fram á við og fengu nokkur góð færi.

Magnús Sverrir Þorsteinsson minnkaði muninn á 68. mín með skoti úr markteig. Kjartan Sturluson, markmaður, náði ekki að halda boltanum eftir fyrirgjöf og átti Magnús ekki í vandræðum með að klára boltann í netið.

Magnús gerði sig aftur líklegan í teig Valsmanna þegar skammt var til leiksloka, en var, að því er virtist, felldur. Kristinn Jakobsson, dómari leiksins, var hins vegar ekki á því að um brot hafi verið að ræða og lét leikinn halda áfram. Magnús lét mótlætið fara í taugarnar á sér og braut klaufalega á sér á lokamínútunum og fékk að líta sitt annað gula spjald og var vísað af velli.

Þrátt fyrir góða takta í seinni hálfleik fóru Grindvíkingar tómhentir úr leiknum. Það sem er verra er að tveir lykilmenn, þeir Ray Anthony Jónsson og Alfreð Jóhannesson, meiddust í leiknum og verða frá eitthvað fram á sumar.
Alfreð ristarbrotnaði og hnéskel Rays hrökk úr sínum stað og verða þeir báðir frá í 4-8 vikur. Það kemur ofan á langan meiðslalista sem telur m.a. Orra Hjaltalín, Eyþór Atla Einarsson og Guðmund Andra Bjarnason.

Óli Stefán Flóventsson, fyrirliði Grindvíkinga, sagði ýmislegt búa í liðinu þrátt fyrir úrslitin. „Eins skelfilegur og fyrri hálfleikurinn var var seinni hálfleikurinn mjög góður hjá okkur. Okkur vantaði allt sjálfstraust í byrjun, en við sýndum góðan karakter í seinni hálfleik.“

Óli Stefán var frekar óánægður með dómgæsluna í leiknum. „Ég ber mikla virðingu fyrir Kristni Jakobssyni sem dómara en hann átti ekki gott kvöld.“

Óli harmaði einnig missi lykilmanna vegna meiðsla, en sagði aðra menn hafa komið sterka inn í staðinn. Hann minntist sértaklega á þá Eystein Hauksson og Jóhann Helga Aðalgeirsson sem komu inn af bekknum í kvöld og breyttu miklu í leiknum.

Næsti leikur Grindvíkinga er gegn FH á sunnudaginn og segir Óli sína menn hvergi smeyka. „Þegar komið er á völlinn eru þetta bara 11 menn á móti 11. Við erum ekki bangnir og þeir munu fá óblíðar viðtökur hjá okkur.“

VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024