Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Dýrmæt stig í súginn hjá Grindavík
Grindvíkingar misstu af þremur stigum í gær gegn Gróttu
Fimmtudagur 30. júlí 2015 kl. 10:37

Dýrmæt stig í súginn hjá Grindavík

Njarðvíkingar unnu loks leik eftir þurrk

Fjölmargir leikir fóru fram í neðri deildum Íslandsmóts karla í knattspyrnu í gærkvöldi en þar bar hæst að Grindvíkingar töpuðu óvænt gegn Gróttu á Seltjarnarnesi, 1-0, í 1. deild karla.

Eina mark leiksins kom á 27. mínútu en Grindvíkingar vildi meina að Grótta hefði aldrei komið boltanum yfir marklínuna og voru heldur óhressir með dómgæsluna í því tilfelli. Grindvíkingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum en tókst ekki að nýta færin sem þeir fengu og þurftu því að sjá á eftir þremur dýrmætum stigum í baráttunni um laust sæti í Pepsí deildinni að ári en Gróttumenn þurftu nauðsynlega á stigunum að halda í botnbaráttunni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í 2. deildinni gerðu Njarðvíkingar góða ferð norður í Skagafjörð og unnu 1-2 sigur á Tindastól. Liðin eru bæði í neðri helming deildarinnar og sigurinn því gríðarlega mikilvægur Njarðvíkingum sem að fóru upp fyrir Tindastól í deildinni með sigrinum, en Njarðvíkingar hafa verið í frjálsu falli síðustu vikur. Theódór Guðni Halldórsson og Ari Már Andrésson skoruðu mörk Njarðvíkur í leiknum.

Að lokum unnu Víðismenn gríðarlega flottan 1-0 sigur á liði Kára í 3. deild karla en leikið var á Nesfisksvellinum í Garði. Eina mark leiksins kom rétt fyrir hálfleik og var sjálfsmark gestanna sem að léku manni fleiri frá og með 23. mínútu en misstu svo sjálfir mann af velli með rautt spjald á 75. mínútu. Víðir berst fyrir lífi sínu í deildinni og hafa verið að vakna af værum blundi í síðustu leikjum en Víðismenn eru komnir úr fallsæti og eru með 10 stig en aðeins markatala heldur þeim fyrir ofan Berserki sem eru í fallsæti.