Dýrkeypt mistök Arons Snæs í uppbótartíma þegar Njarðvík tapaði í Eyjum
Njarðvík tapaði fyrir ÍBV í dag með einu marki í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Sigurmark Eyjamanna skoruðu heimamenn á þriðju mínútu uppbótartíma og var það með skrautlegra móti.
Aron Snær Friðriksson, markvörður Njarðvíkinga, tók þá aukaspyrnu á miðjum eigin vallarhelmingi gegn sterkum vindi. Aron rann til á lausum vellinum og datt á rassinn um leið og hann sparkaði boltanum, úr varð eðlilega afspyrnuléleg aukaspyrna sem fór beint í fæturna Oliver Heiðarsson, hann tók viðstöðulaust skot frá miðju sem fór í stöngina og inn.
ÍBV - Njarðvík 2:1
Njarðvíkingar höfðu stífan vindinn í bakið í fyrri hálfleik og náðu forystu með glæsilegu marki Kaj Leo Í Bartalstovu (24’). Njarðvíkingar sóttu og Oumar Diouck lagði boltann á Bartalstovu sem átti gott skot utan teigs í fjærhornið.
Njarðvíkingar leiddu í hálfleik en heimamenn sóttu stíft í seinni hálfleik með vindinn í bakið.
Njarðvíkingar áttu erfitt með að koma boltanum fram völlinn á móti rokinu en þrátt fyrir nánast stanslausa sókn Eyjamanna rötuðu skot þeirra ekki á markið.
Þegar rúmar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma fengu Eyjamenn horn. Spyrnan var góð og inn á miðjan markteig Njarðvíkinga þar sem Oliver Heiðarsson stökk manna hæst og stangaði hann í netið á meðan varnarmenn Njarðvíkur stóðu eins og frosnir og horfðu á (79’).
Heimamenn héldu áfram að sækja og þegar komið var fram í þriðju mínútu uppbótartíma kom sigurmark þeirra eins og fram hefur komið (90’+3).
Njarðvík voru jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti en ÍBV fer í annað sæti með sigrinum og nær þriggja stiga forystu. Njarðvík er í þriðja sæti með 25 stig, þá koma Keflvíkingar með 24 stig og Grindavík er í níunda sæti með 17 stig.
Leikinn má sjá í spilaranum hér að neðan.