Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Dvelur innan um NBA-stjörnur í Dallas
Elfa, Jenny og litla daman.
Þriðjudagur 13. nóvember 2018 kl. 17:35

Dvelur innan um NBA-stjörnur í Dallas

- Keflvíkingurinn Elfa Falsdóttir er þátttakandi í sögulegum aðstæðum Jenny Boucek þjálfara

Keflvíkingurinn Elfa Falsdóttir hefur átt ævintýralega undanfarna mánuði. Hún hefur ferðast til framandi landa með bestu vinkonum sínum auk þess að umgangast NBA-stjörnur og annast ungabarn í Dallas í Bandaríkjunum. Elfa, sem er tvítug, dvelur hjá Jenny Boucek sem er þjálfari hjá NBA-liði Dallas Mavericks en hún er fyrrverandi leikmaður Keflavíkur. Jenny heldur góðu sambandi við fyrrum liðsfélaga sína hjá Keflavík en meðal þeirra er Margrét Sturlaugsdóttir móðir Elfu. „Hún hringdi í mömmu í vor til þess að tilkynna henni að hún ætti von á barni og spurði í gríni hvort að mamma gæti nú ekki lánað henni eina stelpu til að hjálpa sér með barnið, þar sem við erum nú fjórar systurnar,“ segir Elfa sem ákvað að taka þessu boði.

Ferðast loksins sem vinkonur – ekki liðsfélagar

Áður en kom að dvölinni í Dallas lagði Elfa í heilmikið ferðalag með bestu vinkonum sínum. Eftir útskriftarferð til Grikklands hófst ferðalagið fyrir alvöru, Elfa fór þá ásamt Emelíu Ósk Gunnarsdóttur og Irenu Sól Jónsdóttur í litla heimsreisu eins og hún orðar það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við höfum verið bestu vinkonur lengi og ferðast mikið saman, bæði innan- og utanlands, en allar þær ferðir tengdust körfubolta. Okkur langaði að ferðast saman þar sem við þyrftum ekki að vera vaknaðar snemma og mættar á æfingu eða vera inni á hótelherbergi allan daginn svo sólin gæti ekki haft áhrif á frammistöðu okkar fyrir komandi leik og svo framvegis. Margt gekk á hjá mér í lok síðasta árs, bæði líkamlega og andlega, svo ég ákvað að taka pásu frá körfunni og stuttu seinna meiddist Emelía illa í leik. Irena er einu ári eldri en við tvær svo hennar tími fyrir unglingalandsliðin var liðinn.“

Í fysta sinn síðan árið 2012 var því enginn körfubolti yfir sumarið hjá þeim vinkonum. Þær gátu því ferðast saman sem vinkonur en ekki bara liðsfélagar. Á sex vikna tímabili ferðuðust þær til Dubai, Maldíveyja, Tælands og Bali. Þær lærðu að „sörfa“, bjuggu á bát í viku og snorkluðu í tærum sjónum með marglitum fiskum. Elfa segist hafa lært ýmislegt í ferðinni og upplifað magnaða hluti. „Ég kann mjög vel að meta það að hafa alist upp á íslandi eftir að hafa séð sorglegar aðstæður hjá fólki í þessum löndum sem við ferðuðumst til og svo er þetta líka bara góð reynsla, gaman að geta sagt frá því sem ég hef gert og skoðað næstum því hinum megin á hnettinum.

Ein af fjölskyldunni

Þær Elfa og Jenny hafa þekkst frá fæðingu Elfu. „Hún er bara smá eins og svona stóra frænka mín. Ég hef lengi vitað hver hún er og hún vitað af mér alla mína ævi þar sem mamma var ólétt af mér árið sem Jenny og hún voru liðsfélagar. Ég aðstoða hana mest megnis við litlu stelpuna hennar sem er einungis tíu vikna en svo hjálpa ég henni líka með alls konar daglega hluti. Hún segir við mig daglega að ég sé ekki bara einhver pössunarpía heldur er ég partur af fjölskyldunni og mér líður mjög vel hérna hjá þeim.“ Það er óhætt að segja að Elfa sé að upplifa spennandi hluti í tengslum við vinnu Jenny. Hún hefur verið í kringum æfingar hjá Mavs-liðinu og kynnst leikmönnum þess.

Tók fráköst fyrir Jordan

„Það er tekið rosa strangt á því að það má enginn koma á æfingar hjá liðinu en þegar ég kom þá var allt liðið í Kína nema tveir leikmenn, þeir DeAndre Jordan og Harrison Barnes, sem voru meiddir. Jenny er með það í samningum sínum að hún ferðast ekki fyrstu sex mánuðina hjá barninu sínu svo hún var eftir í Dallas og þjálfaði þessa tvo leikmenn. Ég kom með á allar þær æfingar og fékk að kynnast þessum leikmönnum frekar vel. DeAndre hefur komið til íslands og í hvert skipti sem ég hitti hann þá fer hann yfir það með mér hvað það er sem hann elskar við Ísland.“

Elfa hefur hitt alla leikmenn liðsins og þeir hafa flestir komið og kynnt sig, hún segist ekki kunna við að trufla þá. „Auðvitað var þetta allt voða skrítið fyrst en eftir að hafa mætt á nokkrar æfingar með Harrison og DeAndre þá varð þetta bara venjulegt, þeir eru nú bara manneskjur eins og við.“ Elfa man vel eftir því augnabliki þegar hún áttaði sig á því að þetta væri nú svolítið sérstök staða fyrir körfuboltamanneskju eins og hana.

„Eftir að hafa mætt á bara nokkrar æfingar með þeim þá sit ég lengst frá vellinum og er bara að horfa á sjónvarpið og bíða eftir að æfingin klárist, þá er bara öskrað á mig: „Elfa, can you rebound for me?“ og þá var þetta DeAndre að kalla og þá hugsaði ég: „Vá hvað þetta er skrítið“,“ segir Elfa sem er mikið í kringum þjálfara liðsins og annað starfsfólk sem er á bak við tjöldin. Það vakti mikla athugli þegar hin 44 ára einstæða Jenny varð ófrísk en hún var þá í þjálfarateymi Sacramento Kings. Hún óttaðist um feril sinn í deildinni en að lokum bauðst henni starf hjá Rick Carlisle þjálfara Dallas.
 

http://www.espn.com/nba/story/_/id/24139796/zach-lowe-dallas-mavericks-assistant-coach-jenny-boucek-nba

Vinkonurnar í ferðinni góðu.