Dramatískar lokamínútur í sigurleik Grindvíkinga gegn FH - slakir Keflvíkingar töpuðu á Selfossi
Í kvöld tóku Grindvíkingar á móti ný krýndu bikarmeisturunum úr FH í 16. umferð Pepsi deildar karla og lauk honum með 3-1 sigri heimamanna.
Fyrsta mark leiksins kom á 18. mínútu en það skoraði Atli Viðar Björnsson og kom þar með gestunum í 1-0. Grindvíkingar voru þó ekki lengi að svara fyrir sig því sex mínútum síðar voru þeir búnir að jafna metin. Það gerði Gilles Ondo eftir að hann slapp einn inn fyrir vörn FHinga. Eftir fjörugar upphafsmínútur róaðist leikurinn örlítið og var enn jafnt þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Þegar líða tók á leikinn var útlit fyrir að liðin myndu skilja jöfn, 1-1, en raunin varð allt önnur. Á 90. mínútu skoraði Gilles Ondo stórglæsilegt mark, skot hans fór beint upp í vinkilinn og Gunnleifur í markinu átti ekki möguleika á að ná boltanum. Grindvíkingar því komnir yfir 2-1. Þeir létu það þó ekki duga heldur bættu öðru marki við fjórum mínútum síðar og innsigluðu þar með 3-1 sigur á FHingum. Þriðja markið skoraði Óli Baldur Bjarnason. Vægast sagt rosalegar lokamínútur á Grindavíkurvelli.
Eftir leikinn eru Grindvíkingar 10. sæti með 16 stig, tveimur stigum minna en Fylkismenn í 9. sætinu. Næsti leikur þeirra er gegn ÍBV í Vestmannaeyjum sunnudaginn 22. ágúst klukkan 18:00.
Keflvíkingar töpuðu á móti Selfossi á heimavelli þeirra síðarnefndu, 3-2, í æsispennandi leik. Keflvíkingar komust yfir strax á 11. mínútu með marki frá Magnúsi Þóri Matthíassyni. Á 37. mínútu bættu þeir svo við öðru marki og var þar á ferðinni Hörður Sveinsson en hann náði frákastinu eftir að markvörðurinn hafði varið skot frá Guðmundi Steinarssyni. Þegar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fengu Selfyssingar aukaspyrnu. Boltinn barst inn í teig og þar stökk Jón Guðbrandsson hæst allra og skallaði hann í netið. Það var síðan á 79. mínútu sem dróg aftur til tíðinda. Lasse Jörgensen braut á Viðari Erni Kjartanssyni inní vítateig Keflvíkinga og uppskar vítaspyrnu. Á punktinn fór Viktor Unnar Illugason og hann gerði sér lítið fyrir og vippaði boltanum í netið. Líkt og í Grindavík réðust úrslitin ekki fyrr en á lokamínútunum. Viðar Örn kjartansson komst einn inn fyrir á 87. mínútu og lagði boltann snyrtilega í hornið og tryggði heimamönnum 3-2 sigur.
Keflvíkingar léku vel í fyrri hálfleik en voru afar slakir í seinni. Lasse markvörður hlýtur að sofa illa eftir slælega frammistöðu og fyrstu tvö mörkin skrifast að mestu leyti á hann, fyrra markið átti hann skuldlaust eftir skógarferð og það seinna braut hann á rakarasyninum frá Selfossi sem síðan skoraði sigurmarkið. Þar lak Keflavíkurvörnin eins og gatasigti og leiðin var greið fyrir rakarasoninn sem kom inn á í síðari hálfleik. Annars var leikurinn kaflaskiptur þar sem heimamenn léku eins og topplið í síðari hálfleik og höfðu yfirburðu gegn lélegum Keflvíkingum sem voru betri í þeim fyrri. Eftir leikinn eru Keflvíkingar í 6. sæti deildarinnar með 23 stig og þurfa að girða sig í brók ætli þeir ekki að lenda í neðri helmingi deildarinnar. Næsti leikur þeirra er gegn Stjörnunni á Sparisjóðsvellinum mánudaginn 23. ágúst og hefst hann klukkan 18:00.
VF-myndir / Sölvi Logason - Gilles Ondo jafnar metin fyrir Grindavík á 24. mínútu.
.
.