Dóttir Guðmundar bauð honum snuð á 18. holu

-Guðmundur Rúnar Hallgrímsson klúbbmeistari GS í golfi í tíunda sinn

„Ég er mjög stoltur og ánægður að hafa unnið í tíunda sinn en lokahringurinn var erfiður í einhverju spennufalli. Ég var ekki nógu glaður þegar ég kom að klúbbhúsinu fyrir lokapúttið á átjándu flöt þannig að dóttir mín bauð mér snuð frá Hallgrími syni mínum sem var þarna með henni. Það hefði verið réttast að stinga því upp í mig,“ segir Guðmundur Rúnar Hallgrímsson en hann varð klúbbmeistari karla í tíunda sinn hjá Golfklúbbi Suðurnesja en meistaramóti GS lauk sl. laugardag.

Guðmundur Rúnar sigraði fyrst árið 2005 og vann þá tvö ár í röð. Svo sigraði hann næst 2009 og hefur á síðustu tíu árum unnið átta sinnum. Hann var með átta högga forskot fyrir lokahringinn og því fátt sem hann þurfti að óttast. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem andlegi púkinn fer á öxlina á Guðmundi Rúnari því hann byrjaði mjög brösuglega og lék fyrstu fjórar holurnar á 5 yfir pari og þá var munurinn á honum og næsta manni kominn í 4 högg. En Guðmundur jafnaði sig aðeins og lék næstu fimm holur á pari þannig að hættan á að annar kylfingur truflaði meistarann eitthvað í áttina að tíunda titlinum var ekki nein. Hann lauk lokahringnum reyndar á tíu yfir pari en það er slakasti hringur kappans í langan tíma.

Guðmundur var ekki alveg sáttur að ljúka mótinu með svona lélegum hring og það var því þungt í karli þegar hann kom upp lokabrautina. Hann gekk með golfkerruna upp að klúbbhúsinu áður en hann kláraði púttin á flötinni. Við klúbbhúsið biðu afi hans og nafni ásamt Ólafíu dóttur hans og Hallgrími syni hans. Afi spurði nafna sinn hvernig hafi gengið og fékk stuttaralegt svar um að golfið hafi verið mjög lélegt og skorið eftir því.

„Ólafía dóttir mín spurði mig þá áður en ég gekk í átt að flötinni hvort ég vildi fá snuðið frá Hallgrími drengnum mínum. Þá varð ég kjaftstopp,“ segir Guðmundur og hlær.

Næsta verkefni Guðmundar Rúnars hlýtur því að vera að jafna við mótsmet Arnar Ævars Hjartarsonar en hann hefur unnið meistaramótið tólf sinnum. Guðmundur Rúnar og Þorbjörn Kjærbo eiga tíu hvor. „Ég ætla bara að halda áfram að spila golf og vona að ég vinni fleiri meistaramót hjá GS,“ sagði kappinn sem verður næst í eldlínunni á Íslandsmótinu í höggleik í Vestmannaeyjum í lok mánaðarins.

Guðmundur lék 72 holurnar á 9 höggum yfir pari, 297 höggum og endaði þremur höggum betri en Björgvin Sigmundsson sem var á 300 höggum. Í 3.-4. sæti á 305 höggum voru þeir Þór Ríkharðsson og Róbert Smári Jónsson.
Zuzanna Korpak sigraði í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn en hún lék á 322 höggum. Önnur varð Laufey Jóna Jónsdóttir á 331 höggi.

Hjá Golfklúbbi Sandgerðis varð Hafsteinn Þór Friðriksson klúbbmeistari eftir harða baráttu við Svavar Grétarsson sem var með níu högga forskot fyrir lokahringinn. Hafsteinn lék hann á þremur hundir pari á meðan Svavar átti slakan hring. Hafsteinn vann með þremur höggum, var á 305 en Svavar á 308. Óskar Marinó Jónsson var þriðji á 313 höggum. Milena Medic sigraði í opnum flokki kvenna á 276 höggum Hulda Björg Birgisdóttir varð önnur á 302 og Guðbjörg. S. Sævarsdóttir þriðja á 338. Þær lék 54 holur.