Dómari ruddist inn í kvennaklefa
Kvennalið Grindavíkur og Stjörnunnar mætast á Grindavíkurvelli kl. 19:15 í dag í Pepsí-deild kvenna. Þjálfari Grindavíkurkvenna, Gunnar Magnús Jónsson, verður utan vallar því hann fékk rautt spjald í síðasta leik. Á vefnum Fótbolti.net er fjallað um rauða spjaldið og þegar dómari ruddist inn í kvennaklefann löngu eftir leik með rauða spjaldið á lofti.
Á vefnum Fótbolti.net segir:
Gunnar Magnús Jónsson þjálfari Grindavíkur er allt annað en sáttur við Bjarna Hrannar Héðinsson sem dæmdi leik liðsins gegn Þór/KA í síðustu umferð Pepsi-deildar kvenna en dómarinn gaf Gunnari og einum leikmanna Grindavíkur rauða spjaldið og rauk inn í klefa liðsins eftir leik.
„Það hafði ekkert með úrslit leiksins að gera, þær áttu sigurinn fyllilega skilið. En dómarinn var mjög ósamkvæmur sjálfum sér og dæmdi illa á báða bóga og var einstaklega viðkvæmur,“ sagði Gunnar Magnús við Fótbolta.net en Þór/KA vann leikinn 5-0.
Sagði ekki orð
„Ég hef á mínum ferli, bæði sem knattspyrnumaður og sem þjálfari, þótt ég segi sjálfur frá, sýnt mikla háttvísi. Ég fékk til dæmis aldrei á mínum knattspyrnuferli áminningu fyrir kjaftbrúk eða fyrir að mótmæla dómi. Ég hef fengið gult spjald fyrir að mótmæla dómi sem þjálfari, en aldrei rautt fyrr en á miðvikudag og ég er hundfúll yfir því og það fyrir litlar sakir,“ hélt hann áfram.
„Ég fékk fyrst gult í fyrri hálfleik fyrir að mótmæla dómi en fékk enga aðvörun á undan. Fékk svo brottvísun í síðari hálfleik fyrir að sparka í vatnsgrind sem var við varamannabekkinn, en á Þórsvellli er bekkurinn í um 10 metra fjarlægð frá vellinum. Ég sneri meira að segja baki í dómarann og sagði ekki orð. Aðstoðarmaður minn lét aftur á móti dómarann heyra það hressilega, en fékk enga áminningu! Ég hafði ekkert sett út á störf dómarans eftir að ég fékk gula spjaldið því ég gerði mér fyllilega grein fyrir að ég væri á gulu og vildi alls ekki fá annað gult.“
Dómarinn óð inn í klefa
Gunnar Magnús verður því í stúkunni þegar Grindavík tekur á móti Stjörnunni í dag eins og María Rós Arngrímsdóttir leikmaður liðsins sem einnig fékk rauða spjaldið á Akureyri. Gunnar útskýrði það spjald.
„Eftir að stúlkurnar voru búnar að vera inn í klefa í um 3 - 5 mínútur eftir leik óð dómarinn inn í klefa. Þær hefðu getað verið á brókinni stúlkurnar, en sem betur fer fyrir dómarann þá voru þær það ekki. Hann spyr um leikmann númer 25 og þegar honum er vísað á hana þá segir hann henni að hún hafi fengið brottvísun. Spurður að ástæðu þá segir hann að María hafi kallað sig 'fífl'.“
Fékk gult á börum á leið til búningsklefans
„Til að toppa frammistöðu sína þá gefur hann Elínborgu Ingvarsdóttur gult spjald á 56. mínútu samkvæmt leikskýrslu en þá er verið að bera Elínborgu á börum til búningsklefans,“ sagði Gunnar.
„Við munum skrifa bréf til KSÍ vegna frammistöðu dómarans til að vekja athygli á hans framgöngu,“ sagði hann að lokum.